Lögmenn við Arnarhól ehf., lögmannsstofa Steinbergs Finnbogasonar, var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í dag gert að greiða hönnunarfyrirtækinu Reykjavík Letterpress ehf. (RL) 55 þúsund krónur, auk dráttarvaxta frá 19. desember 2016, vegna ógreiddra eftirstöðva reiknings fyrir hönnunarvinnu. Að auki þarf lögmannsstofan að greiða málskostnað vegna málsins.

Atvik málsins eiga rætur að rekja til sumarsins 2016. Þá hafði Gunnar Steinn Pálsson, almannatengslaráðgjafi, samband við RL með það að marki að félagið ynni kennimerki fyrir lögmannsstofuna. Sú vinna stóð yfir með hléum á haustmánuðum og var meðal annars rætt um framsetningu merkisins og mögulegar leturgerðir.

Vinnan gekk hægt fyrir sig og í október sendi hönnuður RL tölvupóst á Gunnar Stein og Steinberg og tók fram að hún vildi gefa út reikning fyrir þeirri vinnu sem þegar hafði verið unnin. Nánar tiltekið var um að ræða 14,5 klukkustundar vinnu.

„[M]ér gengur illa að réttlæta það fyrir sjálfum mér – og hvað þá Steinbergi – að vinnan sem komin er í merkið hans sé jafn mikil og raun ber vitni miðað við hvað verkið er skammt á veg komið (sem auðvitað er okkur að kenna en ekki þér). Ég hef reyndar ekki séð reikninginn en ef hann er upp á 14,5 tíma vinnu verður auðvitað að viðurkennast að fontaleitin sem við töluðum um og þessar fyrstu pælingar verða einhvern veginn að enda í frekar snöggsoðnum endaspretti til þess að heildarkostnaður í hönnun verði ásættanlegur fyrir eins manns lögmannsstofu,“ segir í tölvupósti frá Gunnari til hönnuðarins þann 17. nóvember 2016.

Hönnuðurinn stakk þá upp á því að reikningurinn yrði lækkaður niður í tíu tíma vinnu og greitt yrði fyrir þegar unna vinnu. Þráðurinn yrði síðan tekið upp að nýju síðar meir. Varð það úr og var reikningur því gefinn út fyrir tíu stunda vinnu. Heildarupphæð reikningsins var 155 þúsund krónur.

Ekki fallist á tómlæti

Skömmu síðar voru 100 þúsund krónur greiddar inn á reikninginn og samskipti um framhald verksins héldu áfram. Vinnan virðist ekki hafa haldið áfram og reyndi RL ítrekað að innheimta þær 55 þúsund krónur sem upp á vantaði. Þær tilraunir báru ekki árangur og var málinu því stefnt fyrir dóm.

Fyrir dómi byggði lögmannsstofan meðal annars á því að ekki hefði komist á samkomulag um vinnuna og að reikningurinn væri tilhæfulaus. Einnig að RL hefði sýnt af sér tómlæti við að innheimta hina meintu skuld. Ekki var á það fallist meðal annars vegna þess að Steinbergur hefði oftar en ekki fengið send afrit af samskiptum RL og Gunnars Steins. Sýknu á grundvelli tómlætis var einnig hafnað þar sem RL hafði ítrekað gengið eftir því að fá eftirstöðvarnar greiddar og meðal annars sent innheimtubréf í þrígang í þeim tilgangi. Varakröfu um lækkun reikningsins var einnig hafnað.

Að endingu var lögmannsstofan dæmd til að greiða RL 300 þúsund krónur í málskostnað.