Evrópusamtökin standa fyrir hádegisfundi með Dr. Roderick Pace, einum helsta sérfræðingi Möltu í samskiptum við ESB, á veitingahúsinu Lækjarbrekku fimmtudaginn 4. ágúst kl. 12 - 13. Nú er rúmt ár síðan Malta gekk í Evrópusambandið. Íbúar þessa eyríkis í Miðjarðarhafinu eru um 390 þúsund og voru skiptar skoðanir meðal eyjarskeggja um inngönguna.

Þó samþykkti meirihluti þeirra inngöngu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Af þessu tilefni standa Evrópusamtökin að opnum fundi með Dr. Roderick Pace, einum helsta sérfræðinga Möltu í samskiptum við ESB og ráðgjafa maltnesku ríkisstjórnarinnar í samningunum um aðild þeirra að Evrópusambandinu.

Heiti fyrirlesturins er ,,Malta í ESB, hvernig hefur fyrsta árið gengið?"

Dr. Roderick Pace er forstöðumaður Evrópufræðaseturs Háskólans á Möltu. Hann er með MA gráðu í alþjóðasamskiptum og Evrópufræðum frá Bologna Center við John Hopkins háskóla í Bandaríkjunum og doktorspróf frá Reading háskóla á Bretlandi. Dr. Pace hefur skrifað tvær bækur um samskipti Möltu við ESB og fjölmargar greinar í virt fræðirit um ýmis alþjóðamál.