Breska knattspyrnufélagið Manchester United íhugar nú endurfjármögnun lána með hlutafjárútboði fyrir um 600 milljónir Sterlingspunda.

Þetta kemur fram á vef breska blaðsins Telegraph en þar segir að skuldir félagins séu um 700 milljónir punda og nauðsynlegt sé fyrir félagið að endurfjármagna sig að hluta.

Samkvæmt heimildum blaðsins hefur Manchester United þegar leitað til bankanna JP Morgan og Deutsche Bank til að endursemja um skuldir sínar en bankarnir eru meðal stærstu kröfuhafa í félagið.

Manchester United er eitt tekjuhæsta knattspyrnufélag heims og reyndar eitt tekjuhæsta íþróttafélag heims ef út í það er farið. Hins vegar hvíla, sem fyrr segir, miklar skuldir á félaginu en að sögn Telegraph má helst rekja  þær til 790 milljóna punda yfirtöku bandaríkjamannsins Malcom Glazer og fjölskyldu hans á félaginu árið 2005.

Yfirtakan þótti mjög umdeild á sínum tíma að sögn Telegraph. Bæði voru stuðningsmenn Manchester United óánægðir með þá staðreynd að félagið væri komið í eigu útlendinga auk þess sem félagið var skuldsett verulega með yfirtökunni.

Stjórnendur Manchester United hafa þó alltaf haldið því fram að skuldirnar væru viðráðanlegar vegna mikilla tekna félagsins. Þannig námu tekjurnar á árinu 2008 um 72 milljónum punda en á sama tíma voru vaxtagreiðslur félagsins um 69 milljónir punda.

Hins vegar hvílir rúmlega 175 milljóna punda lán á félaginu sem ber 14,5% vexti. Að sögn Telegraph var lánið tekið eftir að Glazer og fjölskylda hans keypti félagið en þá stóð það í 130 milljónum punda. Hækkunina má rekja til áfallinna vaxta vegna vangreiðslna. Restin af skuldum félagins, sem flestar liggja með veð í félaginu sjálfu, eru um 520 milljónir punda og líftími þeirra um sjö ár. Því er ljóst að félagið mun á endurfjármögnun að halda á næstu árum.