„Erlend efnahagsframvinda hér er enn tvísýn, m.a. vegna fjármálakreppunar í Evrópu,“ segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri. Hann gerði grein fyrir þeirri ákvörðun Peningastefnunefndar bankans að halda stýrivöxtum óbreyttum í 5,75%.

Már benti á að horfur séu á meiri hagvexti hér í ár en spáð var þegar Peningamál komu út í maí. Á sama tíma verði efnahagsbatinn æ skýrari, verðbólguhorfur batnað og gengi krónunnar hækkað.

Hann benti hins vegar á að óvíst sé í hver miklum mæli styrking krónunnar í sumar muni haldast á komandi vetri.

„Við verðum að bíða og sjá. Tregða verðbólgunnar gæti verið vanmetin. Við erum með verðbólguvæntingar sem eru enn nokkuð yfir verðbólgumarkmiðum. Hækkun vaxta í maí og júní og hjöðnun verðbólgu hefur dregið úr slaka peningastefnunnar. Eftir því sem slakinn hverfur úr þjóðarbúskapnum er nauðsynlegt að slaki peningastefnunnar hverfi einnig. Óvíst að hve miklu leyti það gerist í gegnum stýrivexti og lægri verðbólgu,“ segir hann.