Stýrivextir verða hækkaðir ef nauðsyn krefur en það er ekki meginmarkmið Seðlabankans.

Þetta kemur fram á vef Reuters fréttastofunnar í stuttu viðtali við Má Guðmundsson, seðlabankastjóra en hann er nú staddur á reglulegum fundi seðlabankastjóra í Basel í Sviss.

Már segir þó að frekar megi ráð fyrir því að lánskostnaður lækki en hækki, þ.e. að stýrivextir haldi áfram að lækka. Hann segir þó að það sé háð þeim skilyrðum að undirliggjandi verðbólga haldi áfram að lækka og áhættufælni aukist en fyrst og fremst þurfi krónan að styrkjast.

Þá segir Már jafnframt að gera megi ráð fyrir því að íslenska hagkerfið sýni batamerki á fyrri helmingi næsta árs. Már segist jafnframt eiga von á því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn klári endurskoðun efnahagsáætlunarinnar í lok september eða í byrjun október en það sé lykillinn að því að fá greidd út þau lán sem heitið hafi verið frá nágrannaríkjum.

Loks er haft eftir Má að hann sé bjartsýnn á framhaldið hér á landi, samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn aukinn trúverðugleikann út á við og samdrátturinn sé minni en gert hafði verið ráð fyrir.