„Umræðan um það hvort krónan sé of sterk er vonlaus. Ég hef verið í þessum bransa síðan árið 1980.  Ég myndi ekki veðja eigin fé á það hvernig gengi krónunnar þróast, “ segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri. Hann benti á það á blaðamannafundi í Seðlabankanum sem nú stendur yfir og gerð er grein fyrir vaxtaákvörðun peningastefnunefndar ekki víst hvort gengi krónunnar muni veikjast á næstu mánuðum, þ.e.a.s. í haust og vetur. Þá sagði hann ennfremur óvíst hvort ferðamannastraumurinn í sumar hafi haft afgerandi áhrif á styrkingu krónunnar í sumar. Tímabilið væri of stutt til að meta það auk þess sem fleiri þættir geti átt hlut að máli.

„En það breytir því ekki að krónan verður að vera þar sem hún er og á meðan við erum að ganga í gegnum þetta ferli og ekki opnast fyrir endurfjármögnun þá þurftum við meiri viðskiptaafgang en minni,“ sagði hann.

„Við þurfum að kaupa gjaldeyri á markaði til að auka gjaldeyrisforðann og forða því að erlendar greiðslur, s.s. ríkissjóðs, éti hann upp. Svo vitum við ekki hver þörfin er hjá stórum aðilum til skamms tíma að hraða endurgreiðslu á erlendum lánum. Það hefur verið okkar skoðun að skaðleg áhrif fjármagnshaftanna komi aðallega fram í möguleikum íslenskra fyrirtækja til beinna fjárfestinga erlendis. Þess vegna höfum við eftir megni reynt að veita undanþágur. Það hefur lagst á sveif með krónunni til skemmri tíma en setur einhvern þrýsting á hana nú,“ segir hann.