Einungis eitt félag hækkaði í virði á rauðum degi á hlutabréfamarkaði kauphallar Nasdaq á Íslandi í dag, en það var Marel, sem hækkaði um 0,59%, í jafnframt langmestu viðskiptunum eða fyrir 505,1 milljón krónur.

Nam lokagengi bréfa félagsins nú 598 krónum, en hæst fór það í 601 krónu fimmtudaginn 16. apríl síðastliðinn frá því að það tók að lækka skart í lok febrúar og náði lápunkti í 480 krónum 18. mars síðastliðinn.

Þrjú félög stóðu svo í stað í verði, það er Brim, Heimavellir og Origo, en Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,06%, niður í 1.847,01 stig, og nam heildarveltan í dag 1,4 milljarði króna.

Næst mest velta var á viðskiptum með tryggingafélögin Sjóvá, eða um 128,5 milljónir króna, en bréf félagsins lækkuðu um 2,74%, niður í 17,75 krónur, og með bréf Vís, eða fyrir um 116,1 milljón krónur, en bréfin lækkuðu um 3,94%, niður í 9,99 krónur.

Mest lækkun var hins vegar á gengi bréfa Skeljungs, eða um 5,03%, niður í 7,36 krónur, í 55 milljóna króna viðskiptum. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um hefur orðið mikið verðfall á olíumörkuðum heims.

Næst mest var lækkun á gengi bréfa Eimskipafélags Íslands, eða um 4,96%, í 124,50 krónur, í þó ekki nema 10 milljóna króna viðskiptum. Þriðja mesta lækkunin var á gengi bréfa Kviku banka, eða um 4,63%, og fór gengi bréfa bankans í 8,23 krónur í 56 milljóna króna viðskiptum.