Eftir þrjú mögur ár tók hlutabréfamarkaðurinn hressilega við sér á árinu sem er nú er að líða. Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands OMXI 10 hækkaði um 31,4% á árinu og stendur nú 2120,93 stigum. Leiðrétt fyrir arðgreiðslum hækkaði vísitalan svo um 33,2%. Velta á markaðnum nam 612 milljörðum króna og jókst veltan um 21,3% á milli ára.

Tvö ný félög bættust við aðallistann á þessu ári en bæði Kvika og Iceland Seafood færðu sig yfir af First North markaðnum og þá bættist fasteignaþróunarfélagið Kaldalón við First North markaðinn.

Leiðrétt fyrir arðgreiðslum hækkaði gengi 14 félaga af 19 á aðalmarkaðnum. Tólf þeirra hækkuðu um meira en 10% og tíu um meira en 15%. Óhætt er að segja að Marel hafi dregið vagninn í hækkunum ársins sem komu meðal annars til vegna skráningar félagsins á markað í Amsterdam samhliða því að tekjur og hagnaður félagsins hefur haldið áfram að aukast.

Í lok árs hafa bréf félagsins hækkað um 68,5% leiðrétt fyrir arðgreiðslum. Þá hækkuðu bréf Símans um 44,6%, bréf TM um 40,9% og bréf Sjóvá um 38,9%. Þess má einnig geta að bréf Össurar hækkuðu um 65,5% á árinu í Kauphöllinni í Kaupmannahöfn.

Annað árið í röð varð hins vegar mest lækkun á bréfum Icelandair Group sem lækkuðu um 21,2% en gengi bréfa félagsins hefur haldið áfram að sveiflast eins og lauf í vindi því þrátt fyrir að stærsti samkeppnisaðili félagsins hafi horfið á braut hefur kyrrsetning Boeing 737 MAX vélanna reynst erfið.

Sýn hefði þó líklega orðið það félag sem hefði lækkað mest á árinu hefði gengi bréfa félagsins ekki farið úr 24,5 í 35 (43% hækkun) á síðustu þremur mánuðum ársins. Þá hækkuðu bréf Eimskip um 11,1% í desember mánuði.

Þrátt fyrir hækkanir í lok árs lækkuðu bréf Sýnar um 16,3% á árinu og bréf Eimskip um 15,2%. Þá lækkuðu bréf Haga um 6%.

Mest velta var með bréf Marel á árinu eða 118,2 milljarðar króna en þar á eftir komu bréf Arion banka með 98,2 milljarða veltu og bréf Símans með 55,4 milljarða veltu. Marel er langverðmætasta fyrirtækið í Kauphöllinni með markaðsverðmæti upp á 473 milljarða króna á meðan nokkur stór viðskipti áttu sér stað á árinu bæði með bréf Arion banka og Símans eins og Viðskiptablaðið fjallaði um á sunnudag .

Gott ár á skuldabréfamarkaði

Velta á skuldabréfamarkaði nam 1.401 milljarði á árinu og jókst um 32% á milli ára. Alls námu viðskipti með ríkisbréf 937 milljörðum, viðskipti með bankabréf 299 milljörðum og viðskipti með íbúðabréf 54 milljörðum.

Á árinu hækkuðu allar skuldabréfavísitölur Kauphallarinnar. Aðalvísitala skuldabréfa (NOMXIBB) hækkaði um 9,5% og stendur í 1.593 stigum. Óverðtryggða skuldabréfavísitala Kauphallarinnar (NOMXINOM) hækkaði um 14,8% og sú verðtryggða (NOMXIREAL) hækkaði um 6,8%.