Fyrirtækin Marel og Delta Lloyd hafa lýst yfir óánægju með yfirtökutilboð breska fjárfestingafélagsins Candover í hollensku fyrirtækjasamsteypuna Stork og hafa nú komist í þá stöðu að geta fellt yfirtökutilboðið.

Marel jók enn við hlut sinn í hollensku iðnfyrirtækjasamsteypunni Stork fyrir helgi, eða úr 10,9% í 16,9%. Þar með eru fyrirtækin Marel og Delta Lloyd komin í lykilaðstöðu til að fella yfirtökutilboð breska fjárfestingafélagsins Candover sem hljóðaði upp á 47 evrur á hlut, eða alls um 1,5 milljarða evra.

Delta Lloyd á 5,2% hlut í Stork og Marel 16,9% eða samtals 22,1%, en bæði þessi félög hafa lýst yfir óánægju með tilboð Candover. Tilboðið byggir á því að það þurfi samþykki handhafa að minnsta kosti 80% hlutafjár í Stork til að það nái fram að ganga. Sameinist Marel og Delta í bandalagi gegn þeim yfirtökuáformum dugar afl þeirra til að fella yfirtökutilboð Candover.

Sjoert Vollebregt, forstjóri Stork, segir í samtali við hollenska viðskiptablaðið Financieele Dagblad að aðgerðir Marels hafi ekki komið sér á óvart. Hann segir að stjórnin muni þó halda áfram gera stærstu hluthöfum Stork grein fyrir tilboði Candover á næstu vikum. Blaðið vitnar m.a. í tilkynningu Autoriteit Financiële Marketen (AMF) um aukinn hlut Marels sem kunni að hafa afdrifaríkar afleiðingar.

Fjárfestingasjóðirnir Centaurus Capital Ltd. í Bretlandi og Paulson & Co. Inc. í Bandaríkjunum, sem eiga sameiginlega um 33,2% hlut í Stork, eru sagðir styðja tilboðið, en þá að því gefnu að ekki berist tilboð sem er 5% yfir tilboði Candover.

Ekki náðist í Árna Odd Þórðarson, stjórnarformann Mearels, en hann er jafnframt framkvæmdastjóri Eyris sem er einn þriggja eigenda LME.