Skuldabréfaútboði Marel Food Systems hf. sem fram fór dagana 22. og 23. Maí síðastliðinn er lokið. Seld voru skuldabréf að andvirði 6 milljarða króna (€ 52 milljónir). Verðbréfamiðlun Landsbanka Íslands hf. hafði umsjón með sölu skuldabréfanna.

Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Marel stefnir að því að hlutafjárútboð félagsins fari fram fimmtudaginn 5. og föstudaginn 6. júní n.k. og ljúki kl. 16:00 þann dag.

Þeir hluthafar Marel sem heimild munu hafa til að taka þátt í hlutafjárútboðinu þurfa að vera skráðir í hluthafaskrá félagsins í lok dags 2. júní. Að teknu tilliti til uppgjörsreglna á íslenskum hlutabréfamarkaði (T+3) þurfa síðustu viðskipti með hluti í félaginu að eiga sér stað fyrir lok dags miðvikudaginn 28. maí n.k. vilji aðilar eiga þátttökurétt í þessum hluta útboðsins.

Auk hluthafa munu þeir fjárfestar sem þess óska sérstaklega geta skráð sig fyrir hlutum í útboði Marel enda skrái þeir sig fyrir a.m.k. 75.000 hlutum í félaginu.

Boðnir verða út nýir hlutir í Marel að söluverðmæti € 117 milljónir.

Í tilkynningunni kemur fram að stjórn Marel hefur áskilið sér rétt til þess að fjölga þeim hlutum sem boðnir verða til sölu í útboðinu þannig að söluandvirði þeirra verði allt að € 147 milljónir, verði umframeftirspurn í útboðinu.

Þá kemur fram að fjöldi hluta sem seldir verða í útboði Marel ræðst af gengi evru gagnvart íslenskri krónu og útboðsgengi. Tilkynnt verður um fjölda hluta sem boðnir verða til sölu og útboðsgengi í kjölfar stjórnarfundar í Marel sem haldinn verður þann 3. júní 2008.

Fyrirtækjaráðgjöf Landsbanka Íslands hefur umsjón með hlutafjárútboðinu.