Héraðsdómur Reykjaness sýknaði í dag Marel af kröfu Glitnis vegna vanefndra afleiðusamninga. Um var að ræða vaxta- og gjaldmiðlasamninga. Glitnir taldi að Marel skuldaði um 4 milljónir evra vegna uppgjörs samninganna. Dómari í málinu komst að þeirri niðurstöðu að það hafi verið Glitnir, en ekki Marel, sem vanefndi samningana. Þá vanefnd má rekja til falls bankans.

Málið snýst um uppgjörsaðferðir afleiðusamninganna sem gerðir voru milli Glitnis og Marels á árinu 2006. Eftir að bankinn féll gerði Glitnir tilboð um uppgjör afleiðusamningana. Fyrsti fundur var haldinn 19. Janúar 2009 og þá var ljóst af hálfu Glitnis að hann hygðist ekki standa við greiðslu vaxta á vaxtagjalddaga í febrúar 2009. Marel vildi að samningarnir héldu gildi sínu út samningstímabilið en það var þann 8. Febrúar 2012.

Eftir að Glitnir innti greiðsluna ekki af hendi hófust viðræður um uppgjör samninganna milli Glitnis og Marels. Ákveðið var að loka öllum samningum og miða uppgjör við 3. Febrúar 2009. Þá var ákveðið að leggja ágreining um uppgjörsaðferð í dóm. Um það snýst málið sem Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í í dag.

Glitnir taldi að notast ætti við svokallaða núvirðisaðferð, sem miðast við þann hagnað sem Marel hefði haft af samningunum ef þeir hefðu gengið til enda. Marel taldi að notast ætti við svokallaða uppsöfnunaraðferð þar sem ekki er tekið tillit til þess ávinnings. Sú aðferð byggir á skuldajöfnun á þeim greiðslum sem yrðu eftir að samningum var lokað og fram að umsömdum lokadag, 8. Febrúar 2012.

Stefnukrafa í málinu er mismunur þessara tveggja aðferða, tæplega 4 milljónir evra. Í niðurstöðu dómsins segir að stefnandi, þ.e. Glitnir, hafi ekki sýnt fram á í málinu að það sé markaðsvenja að gera vaxta- og gjaldmiðlasamninga upp með núvirðisaðferð.

„Þá hefur stefnandi ekki heldur sýnt fram á að stefndi hafi vanefnt samninga aðila en það er málsástæða af hálfu stefnanda. Nægilega er komið fram í málinu að það var stefnandi en ekki stefndi sem vanefndi samningana þegar hann hafnaði að greiða vexti á gjalddaga 8. febrúar 2009, um 240.000.000 króna. Enginn gjalddagi var þá kominn hjá stefnda. Við þessa vanefnd stefnanda féll sú gjaldeyrisvörn sem stefndi taldi sig hafa tryggt með gerð framangreindra vaxta- og gjaldmiðlaskiptasamninga. Fyrirsjáanleg vanefnd varð strax við fall bankans 6. október 2008 og raunveruleg vanefnd á gjalddaga 8. febrúar 2009. Stefndi lýsti því hins vegar yfir í tvígang að hann vildi efna samningana fyrir sitt leyti,“ segir í dóminum.

„Samkvæmt öllu framansögðu verður stefndi sýknaður alfarið af kröfum stefnanda í málinu. Eftir þeirri niðurstöðu verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 1.500.000 krónur.“