,,Það er mjög sorglegt hvernig fór með bankana vegna þess að þeir gerðu marga hluti vel. Þeir fóru fram af glannaskap og það gekk vel af því að það var uppsveifla en þeir bara hættu ekki. Þannig að lendingin var hörð,” segir Margeir Pétursson stjórnarformaður MP banka í samtali við Morgunblaðið í dag.

Hann segir að snemma árs 2006 hafi menn fengið mjög mikla viðvörun og krónan hafi snarfallið. Þá hafi menn byrjað að hafa gríðarlegar efasemdir um íslenskt efnahafslíf. Bankarnir hafi þá farið að spila vörn og staðið vel að því.

,,Hins vegar sá maður því miður strax um haustið að bankarnir byrjuðu aftur að stækka efnahagsreikningana mjög mikið í stað þess að búa sig undir að þessi hagsveifla tæki enda. Þá værum við hugsanlega í ágætismálum í dag.

Það er mjög sorglegt að í stað þess að halda áfram að spila góða vörn þá fylltust stjórnendur bankanna auknu sjálfstrausti við það að hafa staðist þessa þolraun. Eftir það varð ekki aftur snúið og haldið var áfram að stækka gríðarlega mikið,” segir Margeir.

Margeir segist snemma hafa varað við þróuninni ,,en ég sá líka að ef ég hefði farið að gagnrýna útrásina hefði það bitnað starfsemi MP banka. Hjá bankanum vinna 40 manns. Ég gat hreinlega ekki leyft mér að ganga hart fram. Það var mjög takmarkað málfrelsi í viðskiptalífinu,” segir hann.

Á meðan flest fjármálafyrirtæki töpuðu gríðarlegum fjárhæðum á síðasta rekstrarári skilaði MP banki 860 milljóna króna hagnaði eftir að hafa afskrifað 2,2 milljarða króna vegna bankahrunsins og fært niður verðmæti skuldabréfa í eigu bankans.