„Margeir er greinilega svekktur yfir því að geta ekki setið einn að því að bjóða í þessar eignir. Það er greinilega eftir einhverju að slægjast úr því hann bregst svona við. Margeir verður að sætta sig við það að ef til vill eru fleiri sem hafa áhuga á þessu en hann. Það væri auðvitað þægileg staða að vera bara einn að bjóða í það sem maður hefur áhuga á að kaupa," sagði Jón Þórisson, forstjóri VBS Fjárfestingabanka.

Þarna er Jón að vísa til þeirra ummæla Margeirs Péturssonar, stjórnarformanns MP Banka, sem hann lét falla í Morgunblaðinu í morgun, að tilboð VBS í eignir Spron væri siðlaust í kjölfar nýlegra stuðning ríkisvaldsins.

Tilkynningu um áhuga á eignum Spron á að skila fyrir hádegi. Að sögn Jóns Þórissonar hefur VBS fyrst og fremst áhuga á netbanka Spron Nb.is. Innlán bankans hafa verið flutt yfir til Nýja Kaupþings þannig að ekki er um það að ræða að innlánin flytjist til nýs eigenda.

„Við erum staðráðin í því að leita leiða til að auka fjölbreytni í rekstri okkar og auka þjónustu við viðskiptavini og þannig taka þátt í og flýta uppbyggingu í íslensku efnahags- og athafnalífi á næstu misserum og mánuðum."

Jón sagði að áhugi þeirra beindist einkum að þeim kerfum sem væru til staðar í kringum Nb.is þar sem eftir væri að koma í ljós hvort einhver viðskipti myndu flytjast með. Netbankakerfi eru flókin í uppbyggingu og það eru einkum þau og innviðir þeirra og ferlar í kringum þau sem VBS hefur áhuga á segir Jón.

„Það er miklu hægara að kaupa eitthvað sem er í rekstri en að byggja það upp frá grunni."