Rannsókn sérstaks saksóknara vegna viðskipta Baldurs Guðlaugssonar var umfangsmikil að því er Björn Þorvaldsson saksóknari greindi frá í málflutningi þriðjudaginn 15. desember í fyrra. Ítarlega var greint frá málflutningnum í Viðskiptablaðinu 17. desember, en enginn annar fjölmiðill átti fulltrúa í dómsal þegar deilt var um þá kröfu Baldurs að fella skyldi rannsókn á hendur honum niður. Því var að lokum hafnað í héraði og Hæstarétti.

Baldur var ákærður í dag fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi, fyrir að hafa selt hlutabréf sín í Landsbankanum fyrir 192 milljónir króna 18. og 19. september 2008, á sama tíma og hann átti sæti í samráðshópi um fjármálastöðugleika og gegndi embætti ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu. Bankarnir þrír, Landsbankinn, Glitnir og Kaupþing, féllu svo dagana 7. til 9. október, eða rúmum þremur vikum eftir að Baldur seldi bréf sín.

Málinu var vísað frá embætti sérstaks saksóknara til embættis sérstaks ríkissaksóknara eftir að rannsókn var lokið, þar sem meint brot Baldurs varða við lög um opinbera starfsmenn. Ríkissaksóknari má einn fara með ákæruvald þegar um þess háttar mál ræðir. Rannsóknin var að nánast öllu leyti á hendi embætti sérstaks saksóknara.

Margir af æðstu embættismönnum landsins og samstarfsmönnum Baldurs, mánuðina fyrir hrun bankanna, gáfu skýrslu hjá embætti sérstaks saksóknara við rannsókn málsins.

Á meðal þeirra embættismanna sem voru yfirheyrðir, voru Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, Bolli Þór Bollason, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu og núverandi ráðuneytisstjóri í félagsmálaráðuneytinu, Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabanka Íslands, Jónína S. Lárusdóttir, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í efnahags og viðskiptaráðuneytinu, og Áslaug Árnadóttir, sem var skrifstofustjóri í efnahags og viðskiptaráðuneytinu fyrir hrun.

Baldur sat í svonefndum samráðshópi um fjármálastöðugleika fyrir hrun bankanna ásamt þeim sem hér að ofan eru taldir upp. Björn Þorvaldsson sagði í málflutningi sínum 15.desember í fyrra að Tryggvi Pálsson hefði svarað því til aðspurður að samráðshópurinn hefði "alltaf" haft undir höndum innherjaupplýsingar um stöðu bankanna.

Fjármálaeftirlitið tilkynnti Baldri það 7. maí 2009 að málinu væri lokið án þess að því hefði verið vísað til frekari rannsóknar. Stjórn FME ákvað síðan á stjórnarfundi 9. júní sama ár að enduvekja rannsókn á málinu og vísa því til sérstaks saksóknara á grundvelli nýrra gagna, eftir að hafa fengið ábendingu þar um. Þessi nýju gögn voru fundargerðir samráðshóps um fjármálastöðugleika, frá janúar til ágúst 2008, sem geymdar voru í Seðlabankanum. Ekki var upplýst um það í málflutningum 15.desember hvaðan ábendingin hefði komið.

Í fundargerðunum kom meðal annars fram að Baldur lét bóka á fundi að 31. júlí að það gæti orðið "banabiti bankanna" ef upplýsingar um vandamál Landsbankans, vegna skilyrða sem breska fjármálaeftirlitið setti vegna Icesave, yrðu opinber. Björn lagði mikla áherslu á þetta í málflutningi sínum 15. desember.

Lítil reynsla er af rannsóknum á innherjasvikum hér á landi. Aðeins einu sinni hefur maður verið ákærður vegna innherjasvika áður. Það var Gunnar Scheving Thorsteinsson árið 2001 vegna viðskipta með bréf í Skeljungi. Hann var sýknaður vegna þeirra og var málinu ekki áfrýjað til Hæstaréttar.

Ekkert dómafordæmi er því til frá Hæstarétti í málum er varða innherjasvik.