„Við verðum að ganga út frá því að Seðlabankinn búi yfir ítarlegri og betri upplýsingum heldur en þeim sem eru opinberar. Maður verður að treysta því að þeir viti hvað þeir eru að gera, þótt það sé margt sem mæli gegn því að gripið sé inn í markað í miklum mæli,“ segir Daníel Svavarsson, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans, um inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði. Hann segir að almennt séu inngrip sem þessi ekki talin skynsamleg.

Á síðustu vikum hefur bankinn ítrekað beitt inngripum á gjaldeyrismarkaði. Síðasta mánudag keypti bankinn krónur fyrir sex milljónir evra, eða um einn milljarð króna. Um síðustu mánaðamót beitti bankinn sér með sama hætti fyrir ríflega þrjá milljarða króna, eða 18 milljónir evra.

Daníel telur að inngripin geti haft neikvæð áhrif lánshæfismat erlendra matsfyrirtækja.

„Niðurstaða Icesave-málsins hefur ýtt undir að lánshæfi ríkissjóðs hækki á erlendum mörkuðum. Það er þó almennt viðurkennt að matsfyrirtækin munu ekki líta það blíðum augum að verið sé að eyða skuldsettum gjaldeyrisforða í inngrip á gjaldeyrismarkaði. Aðgerðirnar gætu því orðið til þess að vega á móti hækkun lánshæfiseinkunna,“ segir hann og tekur fram að til þessa hafi lágar upphæðir verið undir í inngripunum. „En það safnast þegar saman kemur.“