Síaukinn áhugi er á jógaæfingum samhliða öðrum íþróttum og óhætt að segja að karlmönnum fari fjölgandi þó að konur séu í miklum meirihluta,“ segir María Dalberg, leikkona og jógakennari. Hún kynntist Ashtanga jóga þegar hún var í leiklistarnámi í London. Þar bjó hún í sjö ár og flutti heim til Íslands fyrir rúmu ári og kennir nú í Yoga Shala.

„Ég er að kenna mjög mismunandi fólki með ólíkar þarfir. Þetta er allt fólk sem þarf á jóga að halda en ég móta tímann að þörfum hvers og eins. Ég er til dæmis að kenna handboltastrákum í meistaraflokki jóga. Mjög margir atvinnuíþróttamenn iðka jóga af því að þeir eru búnir að átta sig á hvað það hefur góð áhrif á spilamennskuna og lengir ferilinn þeirra. Svo býð ég líka upp á það að koma og kenna fólki jóga í fyrirtækjum. Þá kem ég á staðinn og kenni tíma, til dæmisí hádeginu. Fólk er mjög ánægt með þetta því þetta sparar tíma og gefur aukna orku og einbeitingu í vinnunni. Þá er fólk með jógamottuna í vinnunni og einhver þægileg föt sem það smellir sér í og tekur svo jógaæfingu í sirka 45 mínútur og er allt annað á eftir.“

María mælir með æfingum sem opna og liðka axlir og mjaðmir fyrir fólk sem situr allan daginn í vinnunni.

„Það eru margar góðar æfingar í Ashtanga-jógakerfinu sem hjálpa til við að liðka axlir og mjaðmir. Einnig hefur fólk mikla þörf fyrir að fá smá tíma fyrir sjálft sig og slaka á. Þess vegna finnst mér mikilvægt að kenna fólki að róa hugann og taka góða slökun í lok tímans.“

Rætt er ítarlega við Maríu í nýjasta tölublaði Eftir vinnu sem kom út með Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.