Hlutabréf lækkuðu í Asíu í morgun en að sögn Bloomberg fréttaveitunnar hafa hlutabréf á asískum mörkuðum ekki lækkað jafn mikið á einum degi í hálft ár. Að sögn Bloomberg má rekja lækkunina til kjör sósíalistans Francois Hollande sem forseta Frakklands.

Hollande, sem er fyrsti sósíalistinn til að ná kjöri sem forseti Frakklands í nærri tvo áratugi, hefur haft uppi stór orð um fjármálamarkaði í sinni kosningabaráttu og marglýst því yfir að hann hyggist herða reglur og eftirlit með mörkuðum. Þá hefur hann sagt fjármálakerfið vera rotið og að nauðsynlegt sé að umbylta því í heild sinni.

Fyrir utan fjármálafyrirtæki voru það helst raftækja- og hrávöruframleiðendur sem lækkuðu á asískum mörkuðum í morgun. MSCI Kyrrahafsvísitalan lækkaði um 2,5% og hefur ekki lækkað svo mikið á einum segi síðan 10. nóvember sl.

Í Japan lækkaði Nikkei vísitalan um 2,6%, í Hong Kong lækkaði Hang Seng vísitalan um 2,8% en í Kína hækkaði CSI 300 vísitalan hins vegar um 0,1% alveg undir lok markaða.

Í Suður Kóreu lækkaði Kospi vísitalan um 1,7%, í Singapúr lækkaði Straits vísitalan um 2,3% og í Ástralíu lækkaði S&P 200 vísitalan um 2,2%.

Hlutabréfamarkaðir í Evrópu hafa líka tekið dýfu niður á við það sem af er degi, nú þegar markaðir í Evrópu hafa verið opnir í 1-2 klst. Bæði Bloomberg og Reuters fréttastofan segja að rekja megi lækkunina til kosninganna í Frakklandi og Grikklandi en þar fóru fram þingkosningar um helgina. Þar náði vinstri flokkarnir líka meirihluta en forsvarsmenn þeirra hafa lýst sig andsnúna hinu svokallaða björgunarprógrammi Evrópusambandsins þannig að búast má við nokkurri óvissu um stöðu Grikklands á næstu dögum og vikum.

FTSEurofirst 300 vísitalan hefur nú lækkað um 1,2% það sem af er degi. Markaðir í Lundúnum eru lokaðir í dag en í Amsterdam hefur AEX vísitalan lækkað um 1,2% það sem er af er degi, í Frankfurt hefur DAX vísitalan lækkað um 1,5%, í París hefur CAC 40 vísitalan lækkað um 1,2% og í Zurich hefur SMI vísitalan lækkað um 1%.

Í Kaupmannahöfn hefur OMXC vísitalan lækkað um 1,4%, í Stokkhólmi hefur OMXS vísitalan lækkað um 1,4% og í Osló hefur OBX vísitalan lækkað um 1,1%.

Þessar lækkanir eru þó aðeins brot af lækkuninni á grískum mörkuðum en í Aþenu hefur Bourse vísitalan lækkað um 7,7% í morgun, en þá hafa skráð fjármálafyrirtæki lækkað um 19%.