Hækkanir voru á mörkuðum í Evrópu í dag, þriðja daginn í röð, í kjölfar jákvæðra frétta um atvinnutölur í Bandaríkjunum á föstudag. Einnig virðast væntingar vera um að seðlabankar í heiminum muni lækka eða viðhalda lágum stýrivöxtum áfram.

Verður stýrivaxtaákvörðun til að mynda hjá Englandsbanka á fimmtudag sem vænt er að verði í átt að lægri stýrivöxtum.

Vísitölur í Evrópu hækka

Hækkaði Stoxx Europe 600 vísitalan um 1,72 % þegar almennar hækkanir voru í flestum geirum nema olíu og gas markaðnum.

Mestu hækkanirnar voru í námuvinnslu, iðnaðar- og tæknigeiranum. Hækkaði Thyssenkrupp AG mest eða um 6,88% í kjölfar viðræðna um sameiginleg verkefni í Evrópu milli þýsku fyrirtækjasamsteypunnar við indverska fyrirtækið Tata Steel ltd en hlutabréf þess hækkuðu um 2,62%.

Í dag hafa jafnframt hlutabréf í ítalska bankanum Banca Monte dei Paschi di Siena SpA, elstu starfandi fjármálastofnun heims, hækkað um 6,94%, meðan hlutabréf í öðrum ítölskum banka UniCredit SpA lækkuðu um 2,89%.

Franska CAC 40 vísitalan hækkaði um 1,76% og FTSE 100 vísitalan breska hefur hækkað um 1,40% í dag. Breska pundið hefur hækkað um 0,29% í dag gagnvart Bandaríkjadal og stendur nú í 1,2992 dölum.

Hækkun Thyssenkrupp var eitt af því sem ýtti undir hækkun þýsku DAX 30 vísitölunnar um 2,10%.

Mögulegar refsingar vegna fjárlagahalla

Augu fjárfesta er á fundi fjármálaráðherra evrulandanna í Brussel sem búist er við að ræði um mörg málefni, þar með talið möguleg áhrif þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem staðfesti að Bretland mun yfirgefa Evrópusambandið.

Jafnframt verður væntanlega rætt um hvaða aðgerðir verður gripið til að refsa Portúgal og Spáni í kjölfarið að því að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins komst að þeirri niðurstöðu að löndin hefðu ekki gert nóg til að lækka fjárlagahallann.