Kauphöllum í Kína var lokað í dag vegna mikils verðfalls á hlutabréfum. Alls liðu um 30 mínútur frá því að þær opnuðu og þangað til þeim var lokað. Af þessum 30 mínútum voru markaðir lokaðir í 15 mínútur eftir að verðfallið náði 5%. Viðskipti voru því í raun einungis opnir í 15 mínútur áður en þeim var lokað.

Þetta er stysti viðskiptadagur í 25 ára sögu hlutabréfamarkaða Kína. Þetta er í annað sinn í vikunni sem hlutabréfamörkuðum er lokað vegna verðhruns á hlutabréfum, en það gerðist einnig á mánudaginn sl. Lokanirnar voru framkvæmdar eftir nýjum reglum sem eiga að stöðva óhóflegt verðfall á hlutabréfamörkuðu sem getur t.d. komið til vegna hræðslu hluthafa. Samkvæmt nýju reglunum þá eru viðskipti stöðvuð í 15 mínútur ef vísitala 300 hlutabréfa sem eru skráð í kauphöllunum í Sjanghæ og Shenzen fellur um 5% og lokað þar til næsta dag ef vísitalan fellur um 7%.

Hlutabréfaverð í samsettur vísitölunni í Sjanghæ endaði í 7% lækkun eftir viðskipti dagsins. Lækkanir dagsins komu í kjölfar ákvörðunar Seðlabanka Kína um að veikja gengi gjaldmiðils Kína, Júanið, gagnvart Bandaríkjadal um 0,5%. Þetta er stærsta gengisveiking síðan 13. ágúst sl. Sérfræðingar telja líkur á því að gengið verði veikt enn frekar.