Veikari efnahagur og lækkandi verð á snjallsímum keppinauta hefur komið niður á sölu iPhone farsíma Apple í Evrópu. Nýjasta gerð símans, iPhone 4S, hefur ekki selst eins vel og fyrri gerðir á meginlandi Evrópu. Markaðshlutdeild Apple hefur því lækkað á svæðinu.

Í frétt CNBC um málið segir að salan á iPhone hafi aukist í Bretlandi og Bandaríkjunum, en ekki á meginlandi Evrópu. Markaðshlutdeild Apple á farsímamarkaði er 36% í Bandaríkjunum og 31% í Bretlandi. Þar hefur hlutdeildin aukist um 10 prósentur á einu ári.

Hún hefur hins vegar dregist saman í öðrum Evrópuríkjum. Í Frakklandi eru 20% notenda með iPhone en voru 29% fyrir ári síðan. Hlutdeildin í Þýskalandi hefur lækkað úr 27% í 22% og svipaða sögu er að segja frá Spáni og Ítalíu.