Samkvæmt upplýsingum sem Chrysler hefur sent frá sér hefur markaðsverðmæti félagsins næstum fimmfaldast á 18 mánuðum. Reiknað er með því að hlutabréf félagins verði boðin almennum fjárfestum til kaups seinnihluta þessa árs.

Verðmæti hvers hlutar í júní 2009 var 1,66 dalir en 7,95 dalir í árslok 2010 samkvæmt gögnum sem félagið sendi bandaríska fjármálaeftirlitinu (e. U.S. Securities and Exchange Commission).

Markaðsverðmæti Chrysler var því í árslok 2010 samkvæmt þessu 4,8 milljarðar dala en 996 milljónir dala í júní 2009. Þá hafði bílasala hrunið og þurfti að líta 30 ár aftur í tímann til að finna sambærilegar sölutölur.

Ítalski bílaframleiðandinn Fiat SpA á 25% hlut í Chrysler en getur eignast allt að 51% í félaginu. Skilyrði fyrir því eru mörg og meðal annars að Chrysler hafi endurgreitt bandaríska ríkinu neyðarlán sem veitt voru í upphafi árs 2009.  Nema þau um 8 milljörðum dala.