Hlutabréfamarkaðir lækkuðu í Bandaríkjunum í dag eftir að hafa sveiflast nokkuð í kringum núllið. Að sögn Bloomberg fréttaveitunnar urðu fjárfestar óróir eftir að Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna sagði í dag að bankar vestanhafs væru enn ekki komnir í jafnvægi og varð það til þess að markaðir lækkuðu undir lok dags.

Bernanke ítrekaði þó nýleg ummæli sín um að engin ástæða væri til að þjóðnýta bankanna. Þeir kæmu hins vegar til með að þurfa aðstoð til að komast yfir erfiðasta hjallann.

Markaðir hækkuðu strax við opnun í morgun, lækkuðu síðan rétt fyrir hádegi, hækkuðu þá aftur eftir hádegi vegna orðróms um aukna eftirspurn frá Kína eftir bandarískum útflutningsvörum en sem fyrr segir lækkuðu þeir aftur, og það nokkuð hratt, undir lok dags.

Nasdaq vísitalan lækkaði um 0,1%, Dow Jones um 0,6% og S&P 500 um 0,6%.