Lán banka og lífeyrissjóða bera nú vexti sem eru sambærilegir við vexti á nýjum lánum Íbúðalánasjóðs, en bankarnir bjóða að auki hærra veðhlutfall og hærri lánsfjárhæðir. Ekki er útlit fyrir að Íbúðalánasjóður geti svarað þessu útspili bankanna fyrr en í nóvember, þar sem lagabreytingu þarf til áður en sjóðurinn getur hækkað veðhlutfall og hámarksfjárhæðir. Því má gera ráð fyrir að á næstunni muni stór hluti þeirra sem standa í fasteignaviðskiptum velja að taka lán hjá bönkum eða lífeyrissjóðum frekar en að taka lán hjá ÍLS. Þetta kemur fram í nýju sérriti greiningardeildar Landsbankans um stöðu og horfur í efnahagsmálum.

Þar segir ennfremur að þar sem húsbréfalán bera almennt vexti sem eru á bilinu 5,1% til 6,0%, en markaðsvextir eru nú 4,2%, má auk þess gera ráð fyrir að stór hluti fólks velji að endurfjármagna áhvílandi lán með lánum banka eða lífeyrissjóða. Það er því skoðun Landsbankamanna að markaðshlutdeild Íbúðalánasjóðs muni minnka mjög á næstunni.

"Minnkandi markaðshlutdeild Íbúðalánasjóðs mun draga úr útgáfu Íbúðabréfa. Að auki munu uppgreiðslur húsbréfalána auka líkurnar á útdrætti húsbréfa. Rúm lausafjárstaða bankanna veldur því að þeir þurfa ekki að leita út á skuldabréfamarkaðinn í bráð þrátt fyrir aukin útlán. Áhrif aukinnar samkeppni á fasteignalánamarkaði hefur því þau áhrif að framboð skuldabréfa mun dragast saman í Kauphöllinni. Þetta er gjörbreytt staða frá því sem var og ein megin ástæða þess að við gerum ráð fyrir áframhaldandi lágum langtímavöxtum. Væntum við t.a.m. þess að ávöxtunarkrafa HFF 44 verði að jafnaði 3,6% næstu tvo ársfjórðunga," segir í riti greiningardeildar.

Þegar líður fram á annan ársfjórðung næsta árs eigum við þó von á að langtímavextir fari að þokast upp á við á ný. Helsta ástæðan er hækkun erlendra vaxta, hækkun stýrivaxta Seðlabankans og væntingar um aukið framboð. Við gerum þó ekki ráð fyrir að langtímavextir fari upp í þær hæðir sem áður hafa sést hér á landi. Gert er ráð fyrir að ávöxtunarkrafa HFF24 verði að jafnaði í 4,2% eftir 12 mánuði og ávöxtunarkrafa HFF44 í 4,1%.