Staða markaðsskuldabréfa í lok mars 2010 nam 1.413 milljörðum króna og lækkaði um 61,7 milljarða í mánuðinum. Í upphafi þessa árs, í janúar 2010, hafði staða markaðsverðbréfa hækkað um tæpa 12 milljarða á milli mánaða og nam þá um 1.497 milljörðum króna.

Þetta kemur fram í hagtölum Seðlabankans. Staða markaðsskuldabréfa nam á sama tíma í fyrra um 1.498 milljörðum króna og hefur staða þeirra þannig lækkað um rúma 84 milljarða á milli ára.

Staða ríkisbréfa lækkaði nokkuð á milli mánaða í mars, eða um 43,7 milljarða, og stendur nú í 333,5 milljörðum króna, samanborið við 260,7 milljarða á sama tíma í fyrra. Staða ríkisbréfa hefur þannig hækkað um 73 milljarða á milli ára, mest allra skuldabréfa, en staðan náði hámarki í febrúar sl. Skv. upplýsingum Viðskiptablaðsins kemur lækkun ríkisbréfa í mars, sem hækkað hafa jafnt og þétt síðasta árið, nokkuð óvænt.

Staða íbúðabréfa hækkaði þó um tæpa 13 milljarða á milli mánaða í mars og nam 720,9 milljörðum króna í lok mánaðarins. Þá hefur staða íbúðabréfa hækkað um 62,5 milljarða á einu ári.

Líkt og síðustu mánuði eru það skráð bréf atvinnufyrirtækja sem lækka mest á milli mánaða en í lok mars nam staða þeirra um 134,3 milljörðum króna og hafði þá lækkað um rúma 26 milljarða á milli mánaða. Staða skráðra bréfa atvinnufyrirtækja hafa nú lækkað um 212,4 milljarða á milli ára

Markaðsvíxlar hækkuðu um 413 milljónir króna á milli mánaða í mars en staða þeirra var í lok mánaðarins rúmir 77 milljarðar króna. Þá hefur staða markaðsvíxla hækkað um 16,3 milljarða á milli ára. Þar munar mestu um ríkisvíxla og eldri ríkisbréf sem hafa hækkað um rúma 18 milljarða á milli ára á meðan banka og sparisjóðsvíxlar hafa lækkað um 1,7 milljarða á milli ára.

Skráð hlutabréf hækka á milli ára

Skráð hlutabréf í Kauphöllinni hækkuðu um tæpa 24 milljarða á milli mánaða í mars og nam staða þeirra í lok mánaðarins um 243,4 milljörðum króna. Þá hafa skráð hlutabréf hækkað um tæpa 70 milljarða á milli ára. Til frekar upplýsinga þá hefur virði skráðra bréfa á aðallista Kauphallarinnar hækkað um rúma 67 milljarða á milli ára á meðan virði bréfa á First North markaðnum hafa hækkað um tæpa 2 milljarða á milli ára.

Til gamans, ef gamans skyldi kalla, má taka fram að frá því í september 2008 hefur virði skráðra bréfa í Kauphöllinni lækkað um tæpa 1.100  milljarða króna og frá því í júlí 2007, þegar gamla úrvalsvísitalan náði hámarki, hefur virði skráðra bréfa í Kauphöllinni lækkað um rúma 3.390 milljarða króna.