Fasteignamat fasteigna, jarða, lóða og hlunninda ríkisins var tæplega 129 milljarðar króna um síðustu áramót, samkvæmt upplýsingum frá Fasteignum ríkissjóðs, og brunabótamat þeirra hátt í 154 milljarðar króna. Ef reiknað er með að markaðsvirði sé um 20% hærra en fasteignamat myndi markaðsvirði eigna ríkisins vera áþekkt brunabótamatinu, þ.e. um 155 milljarðar króna.

Þessar tölur eru byggðar á gögnum frá Fasteignamati ríkisins og birtar með þeim fyrirvara að Fasteignir ríkissjóðs eru enn að vinna við að ná heildaryfirsýn yfir fasteignir ríkisins, en þær ættu þó að gefa nokkuð raunsanna mynd af fasteignamatinu.

Flatarmál eigna hátt í milljón fermetra

Hús og mannvirki í eigu ríkisins eru 1.566 talsins (þar af 282 eignir sem ríkið á með öðrum, einkum sveitarfélögum) og tæplega 950 þúsund fermetrar að flatarmáli. Fasteignamat þessara eigna er rúmlega 113,5 milljarðar króna og brunabótamatið hátt í 154 milljarðar. Brunabótamatið er það sama og fyrir heildartöluna þar eð eðli málsins samkvæmt er ekki gert brunabótamat fyrir jarðnæði.

Almennt er tekið tillit til hlutaeigna við útreikning á stærð og mati en þó með þeirri undantekningu að grunnskólar eru ekki meðtaldir, þó að þeir teljist enn að hluta í eigu ríkisins, eða um 2%. Þá ber að geta þess að stærðir eru ekki skráðar í öllum tilvikum, langflestum þó.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .