Greiningardeild Landsbankans hefur verið þeirrar skoðunar í nokkurn tíma að hlutabréfamarkaðurinn sé hátt verðlagður. Greiningardeildin hefur nú sent frá sér ársfjórðungsrit sitt þar sem rennt er stoðum undir þá skoðun. "Engu að síður er fátt sem bendir til þess að lækkanir verði á hlutabréfaverði í bráð. Bjartsýni ríkir á hlutabréfamarkaði sem lýsir sér m.a. í því að góðar fréttir frá einu fyrirtæki valda hækkunum á markaðnum öllum. Haldi hlutabréfaverð áfram að hækka á þeim hraða sem verið hefur aukast hins vegar líkur á að verðleiðrétting eigi sér stað," segir í ársfjórðungsritinu.

Miðað við verðmatsgreiningar er vænt 12 mánaða ávöxtun á hlutabréfmarkaði neikvæð um 3,8%, en var neikvæð um 0,1% í síðustu vogunarráðgjöf (18. maí). Þar ræður mestu hækkun ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa sem veldur því að verðmat hlutabréfa lækkar að öðru óbreyttu. Auk þess hefur Úrvalsvísitalan hækkað á tímabilinu segir greiningardeildin.

Í ársfjórðungsritinu er fjallað um helstu verðkennitölur á hlutabréfamarkaði, s.s. V/H, V/S og Q hlutföll. Reiknað er vænt V/H hlutfall fyrir árið 2005, sem gefur mat á verðlagningu án áhrifa óvenjulegs gengishagnaðar síðustu missera.

Sérstakur kafli er um áhrif hækkunar stýrivaxta á hlutabréfaverð.
Í vogunarráðgjöf er mælt með yfirvogun á bréfum Og Vodafone, Opinna kerfa og Samherja, en undirvogun á bréfum Bakkavör Group og Marels.