Verslunin Bónus var með lægsta verðið á matarkörfunni samkvæmt könnun ASÍ sem framkvæmd var á höfuðborgarsvæðinu síðastliðinn laugardag. Dýrust var matarkarfan í Nóatúni og var verðmunurinn 22%. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Minnstu munaði á matarkörfunni hjá Bónus og Iceland en í Iceland kostaði hún 2% meira. Matarkarfan hjá Iceland var ódýrust í síðustu könnun ASÍ. Á eftir Iceland kom Krónan, Fjarðarkaup, Nettó og Hagkaup. Verslanirnar Kostur, Samkaup-Úrval og Víðir vildu ekki taka þátt í könnuninni.

Mestur verðmunur var á ódýrustu fáanlegu banönum en verðmunurinn var 158% á þeim á milli Iceland og Hagkaup. Matarkarfan inniheldur 48 almennar neysluvörur til heimilisins.