Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fallist á kröfu Lífeyrissjóðs verslunarmanna um að kvaddir verði til matsmenn til að meta áhrif þess á gengi krónunnar ef upplýsingar um meinta markaðsmisnotkun Glitnis hefðu legið fyrir um áramótin 2007 og 2008.

Glitnir hefur höfðað mál á hendur lífeyrissjóðnum til greiðslu 18,8 milljarða króna vegna óuppgreiddra afleiðusamninga.

Lífeyrissjóðurinn vildi að hinir dómskvöddu matsmenn svöruðu fleiri spurningum, en dómari takmarkaði umfjöllunarefnið við áðurgreinda spurningu. Eiga þeir m.a. að reyna að meta hver hefði verið líkleg gengisvísitala krónunnar á nokkrum tilgreindum dagsetningum hefðu áðurnefndar upplýsingar legið fyrir.