Tryggvi Þór Herbertsson, forstjóri Askar Capital, segir margfaldara á eigið fé eignastýringafyrirtækja, eins og Askar Capital, sé  miklu hærri en hjá viðskipta- eða fjárfestingabönkum og samanburður í frétt Viðskiptablaðsins við Straum-Burðarás eða viðskiptabankana ekki eðlilegur.

„Það er misvísindi að bera fjárfestingarbanka sem hefur nær allar sínar tekjur af eignastýringu hrátt saman við viðskiptabanka og fjárfestingarbanka með blandaða starfsemi eins og fyrirtækjaráðgjöf og miðlun eins og gert var í fréttinni,“ segir Tryggvi Þór.

„Nær væri að bera saman þóknanatekjur og reikna með eðlilegum vexti þeirra í framtíðinni. Þóknanatekjur af eignastýringu Askar á síðasta ári voru um 1,6 milljarðar og aðrar tekjur um 500 milljónir.“

Aðspurður segir Tryggvi að margfaldarar sem hafi verið notaðir við verðmat á síðasta ári á tekjur eignastýringafyrirtækja hafi verið á bilinu 10 til 25. Þannig séu dæmi um að íslensku bankarnir hafi keypt eignastýringafyrirtæki í fyrra  á margfaldaranum 25.

„Ef þessi mælikvarði er notaður sést að matsverð Askar var langt frá því að vera of hátt í samanburði við aðra banka – margfaldarinn var rétt um 10. Hér voru því bornar saman melónur og bananar þótt almennt séum við auðvitað ánægðir að hafa náð að auka verðmæti Askar á fyrsta starfsári,“  segir Tryggvi Þór.