*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Fólk 20. júlí 2021 11:57

Matthías tekur við Borgarplasti

Matthías Matthíasson er nýr framkvæmdastjóri Borgarplasts en hann var áður framkvæmdastjóri flutningasviðs Eimskips.

Ritstjórn
Matthías starfaði áður hjá Eimskipi.
Aðsend mynd

Matthías Matthíasson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Borgarplasts en hann tekur við af Guðbrandi Sigurðssyni. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Á árunum 2009 til 2020 starfaði Matthías sem framkvæmdastjóri flutningasviðs hjá Eimskipi. Frá 2004 til 2009 var hann framkvæmdastjóri Komatsu í Danmörku og þar áður starfaði hann sem framkvæmdastjóri Eimskips í Englandi.

„Guðbrandur hefur leitt fyrirtækið af mikilli festu í gegnum mikla umbreytingu og COVID-19 en hefur nú óskað eftir því að láta af störfum til að sinna öðrum verkefnum. Eftir sameiningu fjölskyldufyrirtækjanna Plastgerðar Suðurnesja og Borgarplasts hefur hann innleitt og byggt upp innri ferla þar sem áhersla er lögð á öryggismenningu, umhverfis- og gæðamál og nýsköpun.

Matthías tekur nú við keflinu og mun halda áfram að efla félagið og sinna fjölmörgum viðskiptavinum Borgarplasts í matvæla- og byggingariðnaði af myndarbrag," segir Árni Jón Pálsson, stjórnarformaður Borgarplasts, í tilkynningunni.

Borgarplast framleiðir fiskiker og frauðkassa fyrir ferskan fisk, frauðeinangrun og ýmsar fráveitulausnir á borð við brunna, olíuskiljur og rotþrær. Í Mosfellsbæ rekur Borgarplast hverfisteypu fyrir fiskikör og í Reykjanesbæ starfrækir fyrirtækið frauðverksmiðju.

Stikkorð: Borgarplast