Hagnaður McDonalds skyndibitakeðjunnar jókst um 1,4% milli ára á öðrum ársfjórðungi, og fór hann úr 1.496,3 milljón Bandaríkjadölum í 1.516,9 milljónir dala, eða sem nemur 185,5 milljörðum króna.

Fóru hlutabréf félagsins upp í sögulegt hámark á föstudaginn þegar uppgjörið birtist, eða upp í 218,5 dali, en hefur gengið lækkað nokkuð í viðskiptum dagsins í dag og er það komið í 215,21 dal þegar þetta er skrifað.

Tekjur skyndibitakeðjunnar voru umfram væntingar á ársfjórðungnum, og námu 5,34 milljörðum dala, og jókst salan um 6,5% á heimsmælikvarða en vænt hafði verið 5,1% vexti. Að teknu tilliti til gengis nam söluaukningin 3%.

Þakkar félagið aukningunni vel heppnuðum tilboðum og einföldun á matseðlum, auk nýs samnings við Disney fyrirtækið um barnaboxin vinsælu.  Á árinu 2019 hyggst félagið eyða um 1 milljarði dala í endurnýjun veitingastaða með aukinni sjálfvirkni, en félagið er hálfnað með það markmið sitt um uppfærslu 2.000 veitingastaða.

Til að styrkja tæknivæðingu félagsins hefur það keypt félagið Dynamic Yield, en það sérhæfir sig í vitvélum sem læra, en einnig opnaði það fyrir fleiri fyrirtæki til að sinna útkeyrslu á mat.