Emil Viðar Eyþórsson var nýlega ráðinn sem fjármálastjóri Hampiðjunnar en fyrir það hafði hann starfað hjá Deloitte í 14 ár.

„Ég þekkti Hampiðjuna og veit að það er gríðarlega spennandi fyrirtæki með mikla möguleika og er fjárhagslega sterkt. Ég var búinn að vera starfsmaður Deloitte í ein 14 ár og það var kominn tími á breytingar og nýjar áskoranir. Hampiðjan gefur mér klárlega tækifæri til að halda áfram að þróast og þroskast í starfi. Fyrirtækið er núna að í því ferli að kaupa stóran hluta af fyrirtæki sem er með höfuðstöðvar í Færeyjum. Ef þau kaup ganga í gegn þá verður það stórt verkefni að samþætta rekstur þessara fyrirtækja, tryggja að yfirtakan gangi vel og fyrirtækið haldi einkennum sínum,“ segir Emil.

Færeyska fyrirtækið sem Emil talar um er fyrirtækið Von, en nýlega var tilkynnt um kaup Hampiðjunnar á 73,3% hlut í fyrirtækinu. Emil segir að þetta séu fyrirtæki sem eigi góða samleið en óljóst er hversu langan tíma það mun taka að samþætta rekstur fyrirtækjanna

Golf á sumrin, skíði á veturna

„Ég er þriggja barna faðir þannig að ég er mikið með börnunum auk þess sem ég spila golf hér í heimabyggð í Mosfellsbænum.“ Emil segir að hann hafi náð að smita eitt af börnunum af golfbakteríunni en það standi til að koma hinum á bragðið líka.

„Ég var líka að byrja á skíðum, konan dró mig í það.“ Emil segir að hann hafi ekki verið áður á skíðum en þetta hafi gengið nokkuð vel. „Ég sit nú líka í stjórn knattspyrnudeildar Aftureldingar, þannig að maður fylgist með liðinu í heimabyggð.“

Nánar er rætt við Emil í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu með að ýta á Innskráning.