Meðal árslaun starfsmanna hjá norska olíu- og gasfyrirtækinu Statoil eru ein milljón norskra króna. Það jafngildir rúmlega átján milljónum íslenskra króna. Fyrirtækið greindi frá þessu í dag, en tölurnar koma fram í ársreikningi fyrirtækisins fyrir síðasta ár.

Meðallaun hjá Statoil hafa hækkað um 44 prósent frá árinu 2010. Rúmlega 23 þúsund manns vinna hjá fyrirtækinu og heildarlaun þessa fólks námu 23,5 milljörðum norskra króna í fyrra.

Hækkunin kemur að hluta til vegna þess að fyrirtækið seldi margar af bensínstöðvum sínum árið 2012, og þá hættu margir lægra launaðir starfsmenn. Talsmaður starfsmanna segir þó í samtali við Dagens Næringsliv í Noregi að meðallaunin séu há vegna fjölda stjórnenda og verkfræðinga sem starfi utan Noregs.