*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Innlent 19. október 2019 17:02

Meira fé í Gullegginu

Yfir 150 hugmyndir bárust í frumkvöðlakeppnina Gulleggið í ár en hún hefur verið haldin árlega síðan 2008.

Ritstjórn
Meðlimir liðanna fimm sem Viðskiptablaðið fjallaði um.
Eyþór Árnason

Þær tíu hugmyndir sem komnar eru í úrslit eru af ýmsum toga, allt frá tæknihugmyndum í nýjan vegan próteingjafa. Úrslit keppninnar ráðast þann 25. október næstkomandi.

Icelandic Startups standa nú fyrir frumkvöðlakeppninni Gulleggið sem hefur verið haldin árlega síðan 2008. Sigurvegari keppninnar hlýtur Gulleggið ásamt 1,5 milljónum króna samanborið við 1 milljón árið 2018. Einnig eru veitt sérverðlaun í fjórum flokkum: Sjálfbærni og grænar lausnir, heilsa og heilbrigði, vara og stafræn lausn. Af þeim 150 hugmyndum sem bárust standa eftir 10 sem tilkynnt var um þann 8. október. Á meðal þeirra er sjálfsleiðingarapp, staðsetningarbúnaður á baujur og hugbúnaður sem draga á úr kostnaði við fasteignakaup.

Ein af tíu úrslitahugmyndunum er Flóttinn en um er að ræða nýja tegund afþreyingar sem tekst að samtvinna þrautaherbergi (e. escape room), borðspil og tölvuleiki. Með því tekst að færa þrautaherbergi, sem hafa notið mikilla vinsælda um heim allan síðustu misseri, heim í stofu. Notendur kaupa þrautir sem verða aðgengilegar í helstu verslunum. Þrautirnar eru síðan leystar í appi sem hægt verður að hlaða frítt niður í gegnum síma. Appið mun sjá um að halda stemmingunni með góðri tónlist ásamt því að taka tímann á keppendum. Eitt af markmiðum teymisins er að að ýta undir samvinnu fólks frekar en samkeppni sem tíðkast oft í hefðbundnum leikjum.

Tæknihugmyndir áberandi

Margar hugmyndir snúa að tækni en hópmeðlimir Dufls vilja bæta núverandi staðsetningarbúnað bauja. Meðlimir hópsins eru allir nemendur í Háskólanum í Reykjavík. Einn meðlimur hópsins hefur unnið sem sjómaður á línu- og netverkskipum og þaðan kom hugmyndin. Að sögn hans mun Dufl bæta núverandi fyrirkomulag meðal annars hvað varðar vatnsheldni og áreiðanleika tækninnar. Sjávarútvegsfyrirtæki myndu gerast áskrifendur Dufls sem myndi að sama skapi sjá um alla þjónustu í kringum búnaðinn.

Önnur tæknihugmynd kom frá Bazar sem er að hanna hugbúnað sem draga á úr kostnaði við fasteignaviðskipti, bæði fyrir seljendur og kaupendur. Vefsíða teymisins á að auka sjálfvirkni í kringum fasteignaviðskipti, seljendur ættu að geta skráð fasteign sína á vefsíðu félagsins og þar valið þjónustu sem hentar þeim. Auk þess gæti kaupandi sent fyrirspurn á seljanda án milliliða og sparar hann því sér meðal annars umdeilt umsýslugjald. Þar væri komin lausn fyrir bæði seljendur og kaupendur sem vilja sjálfvirknivæða fasteignaviðskipti að meira leyti. Vefsíðan er í vinnsluferli en stefnt er að fullbúinni lausn í lok sumars 2020.

Persónulegur leiðsögumaður

Hugmynd Audios er einnig tæknimiðuð en þau ætla sér að hanna sjálfsleiðsagnarapp og upplýsingaveitu. Markmið hópsins er að glæða borgarumhverfi nýju lífi í hljóði og mynd meðal annars með helstu djammsögum Reykjavíkur. Snjallforritið er hannað með það í huga að veita sértækar upplýsingar á aðgengilegan máta. Forritið væri nýtt sem persónulegur leiðsögumaður þar sem hver og einn stýrir ferðinni sjálfur. Einn teymismeðlimur hefur lengi unnið í ferðaþjónustunni og fundið fyrir því að ferðamenn skorti oft hugmyndir að afþreyingu. Þar geti þjónustan þeirra nýst vel en hún er ekki einungis miðuð að ferðamönnum heldur einnig innfæddum.

Umhverfismálin komu einnig fyrir en VEGAnGERÐIN ætlar sér að framleiða vegan próteingjafa sem verður framleiddur að fullu á Íslandi. Varan er frábrugðin bæði oumph og tofu að því leytinu til að hún er einungis unnin úr byggi og baunum samanborið við soja. Því er hægt að framleiða hráefni vörunnar að fullu á Íslandi sem stuðlar að markmiði fyrirtækisins um minnkun kolefnisspors. Þá hentar varan þeim sem hafa sojaóþol. Hópurinn stefnir að því að koma vörunni á markað í janúar.

Fjallað er um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.