*

fimmtudagur, 6. maí 2021
Innlent 11. mars 2021 08:14

Meira runnið til heimila en fyrirtækja

Samantekt Viðskiptaráðs leiðir í ljós að meira fé hefur verið varið í aðgerðir sem nýtast heimilum heldur en fyrirtækjum.

Jóhann Óli Eiðsson
Frá fundi formanna ríkisstjórnarflokkanna þar sem aðgerðarpakki númer tvö var kynntur til sögunnar.
Eyþór Árnason

Stjórnvöld hafa varið ríflega helmingi meira fé í Covid-úrræði til heimila heldur en til fyrirtækja. Þetta leiðir greining Viðskiptaráðs Íslands (VÍ) á viðbrögðum hins opinbera við heimsfaraldrinum í ljós. Munurinn er enn meiri þegar litið er til beinna peningagreiðslna sem runnið hafa til annars vegar heimila og hins vegar fyrirtækja. Aðstoðarframkvæmdastjóri VÍ segir stærstu áskorunina sem blasi við vera að draga úr atvinnuleysi.

Í dag vantar tíu daga upp á að heilt ár sé liðið frá því að fyrsti aðgerðapakki stjórnvalda var kynntur til sögunnar. Meðal þeirra aðgerða sem voru kynntar var hlutabótaleiðin svokallaða, sem fólst í því að ríkið greiddi þrjá fjórðu launakostnaðar starfsmanna, frestun og afnám opinberra gjalda, heimild til úttektar séreignarsparnaðar, brúarlán til fyrirtækja og sérstakur barnabótaauki. Þá tók ríkið á sig að greiða laun starfsfólks sem lenti í einangrun eða sóttkví.

Dreglinum var rúllað út fyrir aðgerðapakka tvö sléttum mánuði síðar en í honum voru lokunarstyrkir kynntir til sögunnar sem og stuðningslán til lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Hið sama má segja um sumarúrræði fyrir námsmenn, frístundastyrki til tekjulágra fjölskyldna og álagsgreiðslur til heilbrigðisstarfsfólks. Alls var áætlað að umfang fyrri pakkans yrði um 230 milljarðar króna og umfang þess síðari um 60 milljarðar króna.

„Í kringum við þessar aðgerðir allar hefur umræðan eilítið verið á þann veg að öll úrræðin renni til fyrirtækja. Hingað til hefur hins vegar ekki verið tekið saman heildstætt hvað hefur runnið til heimila og hvað hefur runnið til fyrirtækja,“ segir Konráð Guðjónsson, hagfræðingur og aðstoðarframkvæmdastjóri VÍ. Af þeim sökum hafi Viðskiptaráðið ráðist í að taka saman og flokka hvaða aðgerðir hafi nýst hvorum aðila fyrir sig.

 

 

Stór hluti nýtist öllum

„Það er rétt að taka það fram að því er ekki þannig farið að aðgerðirnar nýtist annaðhvort eingöngu heimilunum eða eingöngu fyrirtækjunum. Fjöldi þeirra nýtist jafnt báðum hópum og ég myndi segja að öll góð úrræði nýtist samfélaginu í heild,“ segir Konráð. Skýrasta og hreinasta dæmið um slíkt sé hlutabótaleiðin en alls hafi hið opinbera greitt um 25 milljarða króna í úrræðið. Það létti bæðiundir atvinnurekendum á sama tíma og það viðheldur ráðningarsambandi við starfsfólk.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Covid-19