*

föstudagur, 25. september 2020
Innlent 5. maí 2019 10:00

Meirihlutinn féll á eigin prófi

Eyþór Arnalds segir staðreyndir bera ótvíræðan vott um að stefna í uppbyggingu á íbúðarhúsnæði hafi beðið skipbrot.

Kristján Torfi Einarsson
Eyþór Arnalds fer yfir borgarmálin í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins.
Haraldur Guðjónsson

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurborg, segir stefnu borgarinnar í uppbygginu á íbúðarhúsæð hafa mistekist. Staðreyndir tali sínu máli og að samanlögðu sé niðurstaðan ótvíræð.  

„Það má nefna mörg dæmi sem gagnlegt er að skoða í sögulegu samhengi. Í fyrsta sinn frá því að lýðveldið var stofnað sýna tölur að fólki hefur að meðaltali síðustu fimm ár fjölgað hraðar á landsbyggðinni en í höfuðborginni. Þetta er ekki þétting byggðar heldur dreifing. Þegar við metum stefnuna af verkunum en ekki ásetningi hefur stefna Reykjavíkurborgar í húsnæðismálum síðustu ár verið dreifbýlisstefna í reynd.

Annað dæmi er að kjósendur á kjörskrá í borgarstjórnarkosningunum í fyrra voru voru færri en í kosningunum árið 2014. Það er magnað að á einu mesta hagvaxtar- og fólksfjölgunarskeiði lýðveldissögunni skuli kjósendum fækka í höfuðborginni. Á sama tíma sýna nýlegar tölur um fjölda barna á leikskóla að þeim hefur fækkað um 10%. Fjórða dæmið er sú staðreynd að í miðborginni þar sem stefnan var að þétta byggð hefur íbúum fækkað. Nú þegar fasteignamarkaðurinn hefur kólnað umtalsvert eru tómar og óseldar íbúðir hvergi fleiri en í miðborginni. 

Ef við tökum þessar staðreyndir saman blasir við að stefnan um þéttingu íbúabyggðar hefur gjörsamlega mistekist. Það gildir einu hvort menn séu sammála stefnunni eða ekki. Spurningin er hvort stefnan hafi virkað eða ekki. Þrátt fyrir allar allar glærurnar, úttektirnar og stóru orðin þá er niðurstaðan staðreynd. Meirihlutinn er hér að fá falleinkunn í sínu eigin máli. 

Svipuð vandamál blasa við þegar uppbygging á atvinnuhúsnæði síðastliðin ár er skoðuð. Mikið hefur verið byggt af atvinnuhúsnæði á jarðhæð á sama tíma og verslun á í mikilli og vaxandi samkeppni við netið – ekki bara í Reykjavík heldur um heim allan. Þegar verið er að tala um vanda verslunarinnar á Laugavegi fer umræðan gjarnan að snúast um bíla og bílastæði en menn gleyma að þróunin á Laugaveginum á sér hliðstæðu í mörgum borgum víðsvegar um heiminn. Stærsta ástæðan fyrir hnignun rótgróinna verslunarhverfa er ekki lélegt aðgengi fyrir bíla heldur síaukin samkeppnin við verslun á netinu. 

Fasteignaskattar í Reykjavík eru mjög háir í alþjóðlegum samanburði og launakostnaður hér á landi sömuleiðis. Þetta þýðir að samkeppnishæfni verslunar í Reykjavík er mjög veik og hún því illa í stakk búin til þess að mæta þessari nýju samkeppni. Vonandi kemst umræðan upp úr gömlu bíla-hjólförunum og þessi mikilvægu atriði fái líka umfjöllun. Örðuvísi er hætt við að samkeppnishæfni verslunar í Reykjavík haldi áfram að versna, bæði gagnvart verslun á netinu og í sveitarfélögunum í nágrenninu,“ segir Eyþór Arnalds.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.