Um 42% Íslendinga ætla að borða skötu en meirihlutinn, 57,59% ætlar ekki að leggja sér skötu til munns í dag, á Þorláksmessu. Þetta sýna niðurstöður MMR.

Fyrirtækið segir að niðurstöðurnar bendi því til þess yfir 101.000 Íslendingar 18 ára og eldri (sem eru alls ríflega 242 þúsund) ætli að borða skötu á Þorláksmessu. Þó megi áætla að skammtarnir verði þó nokkuð fleiri þar sem að fólk í öðrum aldurshópum borði að sjálfsögðu einnig skötu.

Karlar voru líklegri til að segjast ætla að borða skötu á Þorláksmessu en konur. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 45,4% karla ætla að borða skötu á Þorláksmessu, borið saman við 38,7% kvenna.

Yngra fólk var ólíklegra til að segjast ætla að borða skötu en eldra fólk. Af þeim sem tóku afstöðu og tilheyrðu yngsta aldurshópnum (18-29 ára) sögðust 32,05 ætla að borða skötu á Þorláksmessu, borið saman við 53,2% í aldurshópnum 50-67 ára.

Fólk á landsbyggðinni var líklegra til að segjast ætla að borða skötu en fólk á höfuðborgarsvæðinu. Af þeim sem tóku afstöðu og voru búsett á landsbyggðinni sögðust 50,7% ætla að borða skötu á Þorláksmessu, borið saman við 36,7% íbúa á höfuðborgarsvæðinu.

Svarendur í könnuninni eru átján ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR. Svarfjöldinn var 955 einstaklingar og könnunin var gerð dagana 13.-17. desember 2013.