Fjölmennur félagsfundur Meistarafélags húsasmiða, sem haldinn var nýlega, krefst þess að umhverfisráðuneytið sýni þá ábyrgð og festu sem til þarf þegar verið er að taka upp og samþykkja lög og reglur sem tengjast aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu.

Telur félagið augljóst að með tilkomu nýs staðals um varmatap húsa muni byggingarkostnaður hækka verulega.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Meistarafélagi húsasmiða.

Þar kemur fram að fyrr í vetur tók gildi nýr staðall um útreikninga á varmatapi húsa, ÍST 66:2008. Hinn nýi staðall byggist á dönskum staðli en með aðild Íslands að Evrópsku stöðlunarsamtökunum verður að staðfesta alla samevrópska staðla sem íslenska staðla.

„Með löggildingu ÍST 66 er ljóst að sérstaða Íslands, með okkar hagstæða orkuverð, er að engu höfð,“ segir í tilkynningu félagsins.

„Með tilkomu staðalsins mun byggingarkostnaður hækka verulega vegna krafna um aukna einangrun húsa en samkvæmt reiknireglum staðalsins þarf að auka þykkt einangrunar í nokkrum tilvikum frá því sem almennt hefur verið talið uppfylla kröfur hérlendis.“