*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Innlent 7. maí 2020 18:04

Meniga hreppti viðurkenningu

Tilboðskerfi Meniga valið eitt það besta í heiminum af stærstu alþjóðlegu samtökum fríðindakerfa í heiminum.

Ritstjórn
Georg Lúðvíksson er forstjóri Meniga.
Haraldur Guðjónsson

CardLinx, stærstu alþjóðlegu samtök fríðindakerfa í heiminum, valdi nýlega tilboðskerfi Meniga eitt það besta í heiminum. Í samtökunum eru stjórnendur frá stórfyrirtækjum á borð við Facebook, Microsoft, Mastercard, Bank of America, Samsung og Discover sem útnefndu þau fríðindakerfi sem þau töldu vera best. Samtökin völdu tíu bestu fríðindakerfi heims út frá fjórum lykilþáttum:

  1. Nýsköpun - Varan þarf mæta þörfum neytenda og skila góðu kauphlutfalli. Jafnframt þarf að gæta vel að meðferð persónuupplýsinga.
  2. Virkni - Framúrskarandi notendaupplifun og gott viðmót.
  3. Líftími - Hversu lengi varan hefur verið á neytendamarkaði.
  4. Skali - fjöldi neytenda, söluaðila, banka og kortaútgefenda sem taka þátt í kerfinu.

Tilboðskerfi Meniga er það stærsta á Norðurlöndunum og aðgengilegt öllum notendum Meniga á Íslandi og Svíþjóð ásamt öllum viðskiptavinum Íslandsbanka, gegnum fríðindakerfið Fríðu. Íslandsbanki og Meniga hófu samstarf árið 2017 og í dag hafa yfir 300 íslensk fyrirtæki tekið þátt og sent viðskiptavinum tilboð.

„Val samtakanna er mikil viðurkenning á þróunarvinnu Meniga bæði á Íslandi og erlendis undanfarin ár.  Markmið Meniga er skapa vettvang þar sem neytendur spara og fyrirtæki ná til nýrra viðskiptavina. Kerfið gerir fyrirtækjum kleift að senda neytendum sérsniðin tilboð sem hægt er að nýta með þægilegri notendaupplifun. Neytendur spara með tilboðum sem þeir hafa raunverulegan áhuga á og losna við tilboð sem eru þeim óviðkomandi. Fyrirtæki ná þannig til réttu viðskiptavinanna og nýta markaðsfé sitt með skilvirkum hætti,“ segir Viggó Ásgeirsson, einn stofnenda Meniga og framkvæmdastjóri Meniga á Íslandi.

Meniga vinnur einnig ítarlegar markaðsgreiningar sem byggja á ópersónugreinanlegum gögnum. Þessar greiningar gera fyrirtækjum kleift að sjá markaðshlutdeild sína í samanburði við keppinauta á sama markaði. Meniga hefur einnig reynt að styðja við aukna upplýsingagjöf til almennings með því að vinna greiningar fyrir fjölmiðla. Greiningarnar hafa til að mynda birst víða í fréttum undanfarið í tengslum við þær miklu sviptingar sem eru nú á flestum mörkuðum.

Stikkorð: Meniga