„Þessi dómur Hæstaréttar er auðvitað mikil vonbrigði og vekur furðu. Hann segir beinlínis að menn hafi ekki rétt á því að leita réttar síns fyrir dómstólum á meðan stjórnvald hefur mál til rannsóknar,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja í yfirlýsingu vegna úrskurðar Hæstaréttar í dag.

Hann segir að þetta sé niðurstaðan þrátt fyrir að Samherji hafi hrakið málatilbúnað Seðlabanka með afar sterkum rökum. Sýnt hafi verið fram á að útreikningar Seðlabankans sem aðgerðir hans gegn félaginu byggja á, hafi verið beinlínis rangir.

Í yfirlýsingu Samherja kemur fram að Hæstiréttur bendir á að ekki sé hægt að kæra aðgerð eða ástand sem héraðsdómur hefur heimilað ef hún er afstaðin, sama á hverju hún byggir. Enn fremur segir að með þessu móti er því ekki hægt að kæra húsleit eða aðrar rannsóknaraðferðir sem héraðsdómur heimilar því það tekur mun lengri tíma að koma málum fyrir dómstóla en að framkvæma sjálfar aðgerðirnar.

Eins og vb.is greindi frá fyrr í dag þá hafnaði Hæstiréttur beiðni Samherja um að gögnum sem haldlögð voru í húsleit hjá fyrirtækinu verði skilað og að húsleitin sjálf verði úrskurðuð ógild. Einnig kom fram í dóminum, eins og lesa má í annarri frétt vb.is ,  að Hæstarétti þótti aðfinnsluvert að lögmenn Samherja voru ekki viðstaddir þegar Seðlabanki Íslands óskaði efitr húsleitarheimild þann 27. mars. sl.

Fjallað er nánar um húsleit hjá Samherja í Viðskiptablaðinu í dag.