Rekstrarfélagið ION Hotels ehf. opnar um þessar mundir sitt annað hótel, ION City Hotel, að Laugavegi 28 þar sem Reykjavík Backpackers og Bunk Bar var áður. ION City Hotel er annað hótel félagsins, en hitt hótelið er ION Adventure Hotel á Nesjavöllum. Klippt var á borðann í foropnun hótelsins þann 11. apríl síðastliðinn, en hátíðaropnunin verður um miðjan maí næstkomandi. Þá mun félagið einnig opna veitingastaðinn Sumac á jarðhæðinni í maí.

„Hótelið er 18 herbergja „boutique“ hótel, eins og það er kallað, í menningarlegum íslenskum borgarstíl,“ segir Sigurlaug Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri ION Hotels. Sigurlaug og eiginmaður hennar, Halldór Hafsteinsson, eiga 50% í ION Hotels á móti fjölskyldufyrirtækinu Gistiveri ehf.

„Þetta er spennandi viðbót við þennan hágæða hluta gistingar í Reykjavík. Af 18 herbergjum eru fjórar svítur. Tvær eru minni, með svölum og gufubaði og hinar tvær eru stærri, með svefnherbergi og stofu. Svíturnar eru örugglega með flottari svítum í Reykjavík í dag,“ segir Sigurlaug. Herbergin eru allt frá 22 til 76 fermetrar að stærð.

Veitingastaðurinn Sumac verður í anda Norður-Afríku, en sumac er algengt krydd í norður-afrískri matargerð. Þráinn Freyr Vigfússon og Hafsteinn Ólafsson landsliðskokkar verða þar yfirkokkar.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Hæstiréttur Íslands hefur ógilt veðsetningar vegna lána sem skrifstofustjóri lífeyrissjóðs fékk hjá vinnuveitenda sínum.
  • Umfjöllun um verðmat á Skeljungi og N1.
  • Staðan á fasteignamarkaðnum sett í samhengi.
  • Ítarlegt viðtal við Helgu Þórisdóttur, forstjóra Persónuverndar.
  • Aero Design Global er nýtt fyrirtæki sem sérhæfir sig í þjónustu við flugvélaeigendur og flugrekendur.
  • Ásthildur Gunnarsdóttir nýr framleiðslustjóri Silent tekin tali.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um ríkisskattstjóra.
  • Óðinn skrifar um skýrslur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.