RES Orkuskólinn (RES – the School for Renewable Energy Science) var settur í fyrsta sinn í dag. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra setti skólann við hátíðlega athöfn í Ketilhúsinu á Akureyri í dag, að því er kemur fram í fréttatilkynningu. „Undanfarin fjögur ár hefur verið unnið að uppbyggingu skólans en RES er einkarekin mennta- og vísindastofnun sem mun byggja starfsemi sína á forystu Íslendinga á sviði orkumála," segir í tilkynningunni.

Í nýja skólanum er boðið upp á eins árs alþjóðlegt meistaranám (MSc) í vistvænni orkunýtingu, auk leiðtogaskóla og sumarnámskeiða með áherslu á endurnýjanlega orkugjafa. Skólinn er staðsettur á Akureyri og starfræktur í samstarfi við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. 31 nemandi frá tíu löndum hefur nú meistarnám við skólann í vistvænni orkunýtingu, en mikil ásókn hefur verið í að komast að í RES.

Námið er byggt upp sem eins árs, þriggja anna nám og verður á þessu ári boðið upp á nám á sviðum jarðvarma, efnarafala, og vistvæns eldsneytis og lífmassa. Stefnt er að því að fjölga þessum sviðum og munu fjögur ný bætast við á næstu árum: vatnsaflsorka; vind- og sjávarfallsorka; sólarorka; og orkukerfi og orkustjórnun, er segir í tilkynningu.