Íslenska rannsóknarfyrirtækið Mentis Cura gerði í dag samkomulag við kínverska hátæknisjúkrahúsið WanJia Yuan International Geriatric Hospital um að sjúkrahúsið noti hugbúnað fyrirtækisins við greiningu á Alzheimer og öðrum heilabilunarsjúkdómum. Einnig mun félagið verða leiðandi samstarfsaðili í tengslum við klínískar rannsóknir.

WanJiaYuan International Geriatric Hospital er fyrsta sjúkrahús Kína sem sérhæfir sig í öldrunarsjúkdómum, þar á meðal Alzheimer. Það er hátæknisjúkrahús með 1200 rúmum, þar á meðal 400 fyrir Alzheimers sjúklinga. Í tilkynningu frá Mentis Cura segir að til samanburðar megi nefna að 8 rúm séu á Íslandi og um 30 á Karolinska spítalanum í Stokkhólmi frátekin fyrir Alzheimer sjúklinga. Byggðar verða 10 þúsund íbúðir fyrir um 30 þúsund manns við spítalann fyrir starfsfólk og aðstandendur.

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra var viðstaddur undirritunina og sagði við það tækifæri að samkomulagið væri mikil viðurkenning á því góða starfi sem Mentis Cura hefur unnið.