Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur sent forseta Þýskalands samúðarkveðju vegna ódæðisins sem framið var í Berlín í gær. Þar kemur meðal annars fram að Guðni votti Þjóðverjum samúð sína.

„Í okkar huga er árásin ekki aðeins atlaga gegn því saklausa fólki sem fyrir henni varð heldur beinist hún gegn dýrmætum gildum og lífsgæðum á borð við frelsi og persónulegt öryggi manna. Þannig verk eru eins andstæð þeim friðarboðskap sem jólin og raunar flest trúarbrögð bera í sér og hugsast getur,“ er haft eftir Guðna í tilkynningu frá embættinu.

Guðni vísar jafnframt til þýska skáldsins Goethe sem sagði: „Við höldum alltaf í vonina; alltaf er betra að vona en örvænta.“

Merkel harmi slegin

Angela Merkel, Þýskalandskanslari, segir að þýsk stjórnvöld telji að 12 manns hafi látist í hryðjuverkaárás sem framin var á jólamarkaði í Berlín í gærkvöldi. Sendiferðabíll keyrði inn í hóp fólks, sem ofangreindum afleiðingum. Bloomberg fréttaveitan greinir frá.

Merkel ávarpaði þýsku þjóðina í dag og sagði að Þjóðverjar væru harmi slegnir og að árásin hafi verið hryllileg og nánast óhugsandi að hún hafi átt sér stað. Merkel hyggst heimssækja staðinn seinna í dag.

„Þetta er gífurlega erfiður dagur. Líkt og milljónir Þjóðverja fyllist ég af hryllingi og sorg yfir því sem gerðist í gær í Berlín,“ sagði Merkel við þjóð sína. Byggt á því sem að er nú þegar vitað, telur Merkel árásina hafa verið hryðjuverkaárás. Hún tók einnig fram að rannsókn hefur verið hrundið af stað og að þýska ríkið komi til með að ákæra árásarmanninn innan ramma laganna.

Frauke Petry, formaður þýska flokksins AfD, sagði að Þýskaland væri ekki öruggt ríki. Þýska blaðið Welt hefur haldið því fram að árásarmaðurinn hafi verið flóttamaður frá Pakistan.