Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra átti fund með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands í Berlín, í dag. Á fundinum var rætt um efnahagsmál og meðal annars þær áskoranir sem nokkur ríki á evrusvæðinu glíma nú við á sviði efnahagsmála. Þá var rætt um samningaviðræður Íslands um aðild að Evrópusambandinu, orkumál og norðurslóðamál. Einnig var sérstaklega rætt um menningarsamskipti ríkjanna, en Ísland verður heiðursgestur á bókamessunni í Frankfurt í október næstkomandi og munu nálægt 180 íslenskar bækur og bækur um Ísland, koma út á þýsku af þessu tilefni. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Forsætisráðuneytinu.

Jóhanna Sigurðardóttir og Angela Merkel
Jóhanna Sigurðardóttir og Angela Merkel
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Kanslarinn hrósaði íslenskum stjórnvöldum á blaðamannafundi fyrir að hafa tekist að reisa efnahag sinn við eftir hið alvarlega áfall og hrun bankakerfisins haustið 2008. Þá sagði hún að undravert væri hversu góður árangur hefði náðst, en ljóst væri að íslenska þjóðin hefði lagt mikið á sig til að ná þeim árangri. Fordæmi Íslands væri mikilsvert til að sýna hvernig ná mætti árangri með markvissum aðgerðum. Merkel fagnaði aðildarumsókn Íslands og taldi það eiga vel heima í hópi Evrópusambandsríkja. Hún ræddi einnig um mikilvægi Norðurskautsráðsins og hlutverk þess á heimskautasvæðinu.