Angela Merkel, kanslari Þýskalands, reynir þessa dagana eftir fremsta megni að endurlífga stjórnarskrá Evrópusambandsins, en háttsettir embættismenn aðildarríkjanna 27 munu hittast í Brussel í dag og reyna að sætta þann ágreining sem ríkir um hvernig hin nýja stjórnarskrá eigi að líta út.

Um nýliðna helgi fundaði Merkel meðal annars með forsætisráðherra Portúgals, Jose Socrates, en Portúgal mun taka við forystu í Evrópusambandinu (ESB) af Þýsklandi í næsta mánuði. Áætlun Merkel þessa síðustu daga sem hún fer með forystu í sambandinu er mjög skýr: Hún vill að á fundi aðilarríkjanna 27 sem sem mun fara fram 21. og 22. júní verði lagður grundvöllur að nýrri stjórnarskrá fyrir ESB í öllum helstu aðalatriðum - aðeins lítilvæg tæknileg atriði verði skilin eftir. Stjórnmálaskýrendur segja að samstaða sé að myndast á meðal helstu stjórnmálaleiðtoga ESB um þau atriði sem stjórnarskráin eigi að innihalda. Ekkert ríki er lengur að tala fyrir því að útvíkka enn frekar umfang hinnar upphaflegu stjórnarskráar, heldur er orðið augljóst að hin nýja stjórnarskrá mun minnka fremur en að auka völd embættismanna í Brussel og aðeins verða útvötnuð útgáfa af þeirri upphaflegu, sem var hafnað af Frökkum og Hollendingum í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir tveimur árum.

Slík stjórnarskrá myndi kveða á um viðamiklar breytingar á stofnanakerfi Evrópusambandins með það að markmiði að þær endurspegluðu í meira mæli þær breytingar sem hafa orðið á ESB á undandanförnum árum; hún myndi koma í stað fjölda eldri samninga sem nú mynda lagagrundvöll sambandsins og einfalda ákvörðunartökuferlið. Hins vegar er helsta spurningamerkið sett við Pólverja og Breta, en hinir fyrrnefndu segja að nýtt kosningakerfi sambandins sé ósanngjarnt og hygli Þjóðverjum á kostnað smærri ríkja á meðan Bretar vilja ganga sem allra lengst í að minnka það umfang sem stjórnarskráin mun taka til.

Í upphaflegu stjórnarskránni var gert ráð fyrir því að stofnað yrði sérstakt embætti utanríkisráðherra Evrópusambandsins. Nú er talið sennilegt að horfið verði frá þeim hugmyndum sökum mikillar andstöðu Bretlands. Að auki hafa Bretar talað fyrir því að kaflinn sem kveður á um sérstök grundvallarmanréttindi, meðal annars félagsleg réttindi, verði fjarlægður og njóta þeir einnig stuðnings Hollendinga í þeim efnum. Bretland hefur af því áhyggjur að ef stjórnarskráin innihaldi ákvæði um slík umfangsmikil réttindi muni það leiða til þess að dómstóll Evrópusambandsins fái einn meiri völd í sínar hendur, sem Bretar telja vera óásættanlega skerðingu á fullveldi sínu.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.