Merrion Landsbanki, dótturfyrirtæki Landsbankans á Írlandi, varð á dögunum hlutskarpast írskra verðbréfafyrirtækja í árlegu vali sem viðskiptatímaritið Finance Magazine í Dublin stendur fyrir. Þátttakendur í valinu eru írskir og alþjóðlegir sjóðsstjórar.

Í frétt Landsbankans kemur fram að þetta var í 21.sinn sem valið (Finance Stockbroking Survey) fór fram en í tilkynningu Finance Magazine segir að niðurstaðan úr valinu fyrir árið 2007 sýni að Merrion Landsbanki sé farið að bjóða stærstu verðbréfafyrirtækjum Írlands birginn.

Merrion Landsbanki hlaut efsta sætið í alls 13 flokkum í valinu, þar á meðal í heildarhlutabréfagreiningum og fyrir greinanda ársins. Merrion Landsbanki hlaut þannig fleiri verðlaun en stærstu fyrirtæki Írlands á þessu sviði eins og Davy og Goodbody. Verðbréfafyrirtækið Davy varð efst í valinu ef skuldabréf eru tekin með.

Könnun meðal sjóðsstjóra sem valið byggir á var gerð í október og nóvember 2007. Vægi atkvæða í hlutaréfakönnuninni fer eftir því hversu miklar eignir sjóðsstjórarnir hafa til ráðstöfunar, þannig að þeir sem stýra stærstu sjóðunum hafa mest um það að segja hvaða fyrirtæki veljast í efstu sætin.