*

laugardagur, 27. febrúar 2021
Innlent 3. janúar 2021 15:32

Mest lesnu leiðarar ársins: 1-5

Kjaramál og Icelandair voru umfjöllunarefni mest lesnu leiðaranna og sá mest lesni innihélt bæði efnin.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Það þarf ekki að koma neinum á óvart að kjaramál og málefni Icelandair voru til umfjöllunar í leiðurum blaðsins árið 2020 og enn fremur kemur það fáum á óvart að þeir hafi verið mikið lesnir. Hér má sjá lista yfir mest lesnu leiðara síðasta ár. 

1. Útboð Icelandair og VR

VR ákvað að taka ekki þátt í hlutafjárútboði Icelandair en ljóst var fyrirfram að mikil átök höfðu verið innan stjórnar um það hvort það skildi gert eður ei. „Hvurslags stjórnarhættir eru þetta og hvar liggur lýðræðið hjá þessu rótgróna stéttarfélagi? Miðað við tilmæli stjórnar í sumar vegna hlutfjárútboðsins, útskiptingu stjórnarmanna vegna vaxtahækkana í fyrra og síðast en ekki síst orðræðu formanns VR, virðist lýðræðið hverfast um hans persónu. Ef eitthvað er gert sem honum mislíkar þá hikar hann ekki við að beita sér.“

2. Klukkan tifar hjá Icelandair

„Ljóst er klukkan tifar hjá Icelandair. Þó að viðræður við íslensk stjórnvöld vegna mögulegrar lánalínu eða tryggingar séu á áætlun er enn mikið verk enn óunnið til að tryggja rekstrargrundvöll félagsins til framtíðar. Það er ekkert leyndarmál að einir stærstu lánardrottnar félagsins eru ríkisbankarnir tveir, Landsbankinn og Íslandsbanki. Lánveitingar þeirra nema væntanlega vel á annan tug milljarða króna.“

3. Firringin

Á vormánuðum höfðu félagsmenn í Eflingu boðað til verkfalls í kjaradeilu við sveitarfélög. Því verkfalli var frestað meðan mesta óvissan í fyrstu bylgjunni stóð yfir en það síðan sett á fullt rúmum mánuði síðar. „Tímasetningin ber vitni um einhvers konar firringu, svo notað sé hugtak úr marxískum kenningum. Stangast hún líka fullkomlega á við tilkynninguna, sem send var út 24. mars. Telur virkilega einhver að „faraldurinn sé liðinn hjá?“ Það væri fróðlegt að sjá hvort þríeykið myndi staðfesta það.“

4. Ómenntahroki í bergmálshelli

Áður en veirufaraldurinn skall á voru kjaramál talsvert til umræðu og fóru félagsmenn í Eflingu, sem störfuðu í nokkrum sveitarfélögum, í verkfall í byrjun árs. „Alveg eins og talað er um menntahroka hjá sumum langskólagengnum þá er einnig hægt að tala um ómenntahroka þeirra sem ekki gengu menntaveginn. Í báðum tilfellum byggir hrokinn á minnimáttarkennd þeirra sem í hlut eiga. Hefur ómenntahrokinn látið á sér kræla í orðræðu Eflingar og það er miður.“

5. Framtíð Icelandair

Staða Icelandair var mikið til umræðu á árinu enda þornuðu tekjulindir félagsins upp. Félaginu var bjargað fyrir vind með hlutafjárútboði á haustmánuðum. „Icelandair þarf að svara grundvallarspurningum áður en hægt er að ætlast til að lífeyrissjóðirnir og ríkið leggi því til frekara fé.“

Sjá einnig: Mest lesnu leiðarar ársins: 6-10