Englandsbanki, seðlabanki Bretlands, hefur ákveðið að hækka stýrivexti um 0,5 prósentur, úr 1,25% í 1,75%. Um er að ræða mestu hækkun vaxta í einu skrefi hjá bankanum frá því að hann hlaut sjálfstæði í peningamálum frá bresku ríkisstjórninni árið 1997.

Átta af níu nefndarmönnum peningastefnunefndar Englandsbanka kusu með hálfs prósentu hækkun. Einn nefndarmaður vildi einungis 25 punkta hækkun.

Nefndin sagði í yfirlýsingu að útlit sé fyrir efnahagssamdrætti í Bretlandi á síðasta fjórðungi þessa árs. Þá stefni í að rauntekjur heimila eftir skatta minnki hratt í ár og á næsta ári og að neysluvöxtur verði neikvæður.

Verðbólga í Bretlandi mældist 9,4% í júní síðastliðnum samanborið við 9,1% í maí. Verðbólgan hefur ekki mælst meiri í Bretlandi frá árinu 1982. Verðbólgumarkmið Englandsbanka miðar við 2% verðbólgu.