Kosningaþátttakan í alþingiskosningunum sem fram fóru í gær nam 81,4%. Það er mesta kosningaþátttaka í landskosningum frá því síðustu alþingiskosningum en um leið lakasta kosningaþátttaka í alþingiskosningum sl. 10 ár.

Frá árinu 2003 hafa farið fram tólf kosningar hér á landi, þar af ferna alþingiskosningar, tvennar sveitastjórnarkosningar, tvennar forsetakosningar, tvær þjóðaratkvæðagreiðslur (um Icesave samningana), kosning til stjórnlagaþings (sem síðar var dæmd ólöglög) og loks þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs.

Meðalkosningaþátttaka í öllum þessum kosningum er um 71% en 76% ef undan eru skildar kosningin til stjórnlagaþings og þjóðaratkvæði um tillögur stjórnlagaráðs sem ýta meðtaltalinu nokkuð niður, enda kjörsókn undir 50% í bæði skiptin. Kosningaþátttaka á Íslandi er almennt góð miðað við vestræn lýðræðisríki. Öllu jafna er kosningaþátttaka hér á landi, hvort sem er í alþingis- eða sveitastjórnarkosningum, um eða yfir 75-80% þó hún hafi, fljótt á litið, farið minnkandi síðustu ár.

Eins og sjá má á myndinni hér að neðan er þetta sem fyrr segir mesta kosningaþátttakan frá því í alþingiskosningunum árið 2009. Þá var kosningaþátttaka um 85%. Í forsetakosningunum sem fram fóru síðasta sumar var kosningaþátttakan tæplega 70% og í kjölfarið vöktu margir andstæðingar núverandi forseta, þ.m.t. forsætisráðherra og aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni, athygli á því að kjörsókn hefði verið heldur dræm,

Kjörsóknin í sveitastjórnarkosningum vorið 2010 nam 73,5%, sem var nokkuð minni þátttaka en í sveitastjórnarkosningum árið 2006 þegar hún nam tæplega 79%. Nokkrum mánuðum áður, eða í mars 2010, höfðu tæplega 63% kjörbærra manna greitt atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave samningana, hina svokölluðu Icesave II samninga.

Minnst var kosningaþátttakan þó í þriðju kosningunum það árið, eða í kosningu til stjórnlagaþings haustið 2010. Þá var kosningaþátttakan aðeins tæplega 37% sem varla þekkist hér á landi. Til upprifjunar má geta þess að í janúar 2011 dæmdi Hæstiréttur kosninguna ógilda.

Í apríl 2011 gengu landsmenn enn einu sinni að kjörborðinu, en þá hafði nýjum lögum um ríkisábyrgð vegna Icesave samninganna (Icesave III samningana eins og þeir eru gjarnan kallaðir) verið synjað af forseta og vísað til þjóðaratkvæðagreiðslu. Rúmlega 75% kjörbærra manna mætti á kjörstað og kolfelldi samninginn eins og þekkt er.

Hér að neðan má sjá graf yfir kosningaþátttöku kosningum sl. áratug. Inn í grafið vantar kosningaþátttöku í sveitastjórnarkosningum árið 2002 en hún var þá 82,3%.